Innlent

Pyndinganefnd í eftirlitsferð á Íslandi

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Ráðið hefur áður lýst yfir áhyggjum af geðheilbrigðismálum í fangelsum.
Ráðið hefur áður lýst yfir áhyggjum af geðheilbrigðismálum í fangelsum.

Nefnd Evrópuráðs um varnir gegn pyndingum er í reglubundinni eftirlitsferð á Íslandi en nefndin var hér síðast 2012. Nefndin hefur eftirlit með stofnunum sem vista frelsissvipt fólk, fangelsi, geðdeildir og vistheimili. Þá ræða erindrekar nefndarinnar við fjölda fólks; starfsfólk umræddra stofnana, frjáls félagasamtök og fleiri.

Nefndin kom hingað síðast í eftirlitsferð árið 2012 og gaf út skýrslu um heimsóknina 2013. Í skýrslunni var því lýst að aðstæður hér á landi væru heilt yfir góðar en þó fylgdu henni fjölmargar ábendingar um nauðsynlegar úrbætur auk beiðna um frekari upplýsingar. Lögð var áhersla á lokun gamalla fangelsa (í Kópavogi og á Skólavörðustíg) og hraðað yrði byggingu nýs fangelsis.

Lýst var áhyggjum af geðheilbrigðismálum í fangelsum landsins og gagnrýnt að verulega skorti á að sett hefði verið heildstæð löggjöf um geðheilbrigðisþjónustu.

Fulltrúar nefndarinnar gefa ekki kost á viðtölum við fjölmiðla meðan á heimsókn þeirra stendur vegna samningsbundinnar trúnaðarskyldu við stjórnvöld. Nefndin mun hins vegar fljótlega eftir heimsóknina senda frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kemur hvaða stofnanir voru heimsóttar og við hvaða yfirvöld var rætt. Þetta kemur fram í svari nefndarinnar við fyrirspurn Fréttablaðsins. Þar kemur einnig fram að búast megi við því að íslenskum stjórnvöldum verði send skýrsla nefndarinnar um heimsóknina síðla árs. Það verði þá undir stjórnvöldum komið hvort þau kjósa að birta skýrsluna opinberlega.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.