Innlent

Dýradagurinn haldinn í fyrsta sinn á Íslandi

PK skrifar
Ísak er skipuleggjandi Dýradagsins.
Ísak er skipuleggjandi Dýradagsins. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Landvernd stendur í dag fyrir skrúðgöngu frá Laugarnesskóla yfir í Grasagarðinn í tilefni Dýradagsins, sem er nýr viðburður á vegum Landverndar sem fyrirhugað er að verði árlegur.

Þema fyrstu skrúðgöngunnar er meðal annars málefni hafsins og plastmengun í hafi. Viðburðurinn er settur upp sem blanda af umhverfisfræðslu og skapandi vinnu með ungmennum sem meðal annars felst í búningagerð úr efnivið sem annars yrði fleygt.

Skrúðgangan hefst klukkan 14.00 í dag, á alþjóðlegum degi líffræðilegrar fjölbreytni, sem þar að auki er tileinkaður 50 ára afmæli Landverndar.

Ísak Ólafsson, skipuleggjandi viðburðarins, segir að hugmyndin að baki deginum sé að hluta til viðbragð við umræðu sem verið hefur um umhverfismál, umræðu sem er oft á tíðum á neikvæðum nótum.

„Mér finnst mikilvægt að við komum saman og fögnum lífinu sem er til,“ segir Ísak. „Á þessum viðburði eiga allir að geta komið saman, óháð skoðunum, og fagnað.“

Dagurinn er byggður á hugmyndum Roots & Shoots, samtaka Jane Goodall í Taívan og Argentínu sem skipuleggja svipaðan viðburð sem kallast Animal Parade. Goodall stefnir sjálf á að vera viðstödd Dýradaginn á Íslandi á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×