Enski boltinn

Nýr framherji Chelsea setur markið hátt og dreymir um að gera eins og Hazard

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christian Pulisic.
Christian Pulisic. Mynd/@ChelseaFC
Christian Pulisic var kynntur sem leikmaður Chelsea í gær en félagið keypti hann frá Borussia Dortmund.

Chelsea keypti hann reyndar frá þýska liðinu í janúar en lánaði hann til Borussia Dortmund til loka tímabilsins. Kaupverðið var 58 milljónir punda eða tæplega 9,2 milljarðar íslenskra króna.

Christian Pulisic skrifaði undir fimm ára samning í janúar en hann er enn bara tvítugur.

Hann kemur til Lundúnaliðsins á sama tíma og það er mikil óvissa um framtíð Belgans frábæra Eden Hazard.

Blaðamenn spurðu Christian Pulisic líka strax út í Eden Hazard.

„Það er ótrúlegt að sjá hvað Eden getur gert. Hann er leikmaður sem ég lít upp til og myndi elska að verða,“ sagði Christian Pulisic.





„Það er án ef markmiðið að ná eins langt og hann. Enginn leikmaður er það vitlaus að vilja ekki vera í sama liði og hann,“ sagði Pulisic.

Það er þó ekki líklegt að þeir Christian Pulisic og Eden Hazard fái að spila saman. Eden Hazard er væntanlega á förum til Real Madrid eftir úrslitaleik Evrópudeildarinnar.

Christian Pulisic eyddi nokkrum dögum í London til að kynna sér betur aðstæður hjá Chelsea en flaug svo í sumarfrí heim til Bandaríkjanna í dag.

Hann skoraði 4 mörk í 20 deildarleikjum með Borussia Dortmund á nýloknu tímabili en liðið endaði í öðru sæti á eftir Bayern München.

Þetta verður ekki mjög langt frí hjá Pulisic því hann er að fara að keppa með bandaríska landsliðinu í sumar. Bandaríkjamenn taka þátt í Gullbikar Norður og Mið-Ameríku og fyrsti leikurinn er 18. júní.

Þessi kaup Chelsea þýða að Christian Pulisic er orðinn dýrasti bandaríski knattspyrnumaðurinn frá upphafi. Hann er líka sá yngsti sem hefur verið fyrirliði bandaríska landsliðsins, sá yngsti sem skorar fyrir bandaríska landsliðið í undankeppni HM, yngsti erlendi leikmaðurinn sem skorar í Bundesligunni og sá yngsti til að spila með Dortmund í Meistaradeildinni.

„Ég vil ekki að fólki líti bara á mig sem mann sem var yngstur til að gera hitt eða þetta. Ég vil verða stöðugur leikmaður sem fólk ber virðingu fyrir og leikmaður sem nær árangri í sinni deild,“ sagði Pulisic.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×