Íslenski boltinn

Agla María búin að búa til átta mörk í fyrstu fjórum umferðunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Agla María Albertsdóttir er hér fagnað af liðsfélaga sínum Fjollu Shala.
Agla María Albertsdóttir er hér fagnað af liðsfélaga sínum Fjollu Shala. Vísir/Bára

Agla María Albertsdóttir hefur byrjað tímabilið frábærlega í Pepsi Max deild kvenna og á mikinn þátt í því að Íslandsmeistararnir eru með fullt hús á toppi deildarinnar.

Agla María er nú markahæsti leikmaður deildarinnar með fimm mörk í fjórum leikjum en hún er einnig ein af þeim sem hafa gefið flestar stoðsendingar í fyrstu fjórum umferðunum.

Agla María hefur gefið þrjár stoðsendingar eins og þrír aðrir leikmenn eða þær Fanndís Friðriksdóttir og Elín Metta Jensen úr Val og Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir úr Breiðabliki.

Agla María hefur þar með komið með beinum hætti að átta af þrettán fyrstu mörkum Breiðabliksliðsins á leiktíðinni. Aðeins tvö önnur félög (Valur 13 og Þór/KA 8) hafa skorað svo mörg mörk í deildinni til þessa.

Agla María hefur líka skorað í öllum fjórum leikjunum og gefið stoðsendingu í öllum nema fyrsta leiknum þar sem hún skoraði tvö mörk. Landsliðskonan hefur þar með komið að tveimur mörkum í öllum leikjunum fjórum.

Agla María kom að samtals sautján mörkum á öllu síðasta tímabili (8 mörk og 9 stoðsendingar) og er því næstum því hálfnuð í að jafna þann árangur þrátt fyrir að fjórtán af átján umferðum séu enn eftir af deildarkeppninni í ár. Það er því líklegt að landsliðkonan geri enn betur í sumar en í fyrra. 

Hér fyrir neðan má sjá lista yfir þá leikmenn sem hafa búið til flest mörk í Pepsi Max deild kvenna til þessa í sumar.


Leikmenn sem hafa átt þátt í flestum mörkum í Pepsi Max deild kvenna 2019:

8 mörk
Agla María Albertsdóttir, Breiðabliki (5 mörk + 3 aðstoðir)

6 mörk
Elín Metta Jensen, Val (2 mörk + 3 aðstoðir)

5 mörk
Stephany Mayor, Þór/KA  (4 mörk + 1 aðstoð)

4 mörk
Margrét Lára Viðarsdóttir, Val  (3 mörk + 1 aðstoð)
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, Breiðabliki  (1 mark + 3 aðstoðir)
Hlín Eiríksdóttir, Val (3 mörk + 1 aðstoð)
Andrea Mist Pálsdóttir, Þór/KA  (2 mörk + 2 aðstoðir)
Fanndís Friðriksdóttir, Val  (1 mark + 3 aðstoðir)
Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Breiðabliki  (3 mörk + 1 aðstoð)Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.