Innlent

Næsti þristur áætlar að koma á sunnudag

Kristján Már Unnarsson skrifar
Miss Montana heitir þristurinn sem áformað er að lendi í Reykjavík á sunnudag.
Miss Montana heitir þristurinn sem áformað er að lendi í Reykjavík á sunnudag. Mynd/D-Day Squadron.

Stríðsþristarnir fimm, sem áðu í Reykjavík í gær á leiðinni til Normandí, eru núna allir flognir á brott áleiðis til Bretlands. Sá fyrsti fór í loftið laust fyrir klukkan átta í morgun en sá síðasti, Virginia Ann, um klukkan hálftvö. Áfangastaðurinn er flugvöllurinn í Duxford norðan London með millilendingu í Prestvík í Skotlandi. 

Þar með eru alls ellefu Douglas Dakota-flugvélar farnar í gegnum Ísland af þeim fjórtán, sem tilkynnt hefur verið að muni fljúga frá Bandaríkjunum til Evrópu vegna 75 ára afmælis innrásardagsins mikla, D-dagsins þann 6. júní.

Flugvélin D-Day Doll var meðal þeirra sem flugu af landi brott í morgun. Stöð 2/KMU.

Íslenski þristurinn Páll Sveinsson situr núna einn eftir á flugstæðinu norðan Loftleiðahótelsins. Þar var hann í gærkvöldi í hópi sex þrista sem almenningi gafst kostur á að skoða og gripu margir tækifærið í veðurblíðunni að komast í návígi við þessar sögufrægu flugvélar. 

Óvissa ríkir um hvenær síðustu þrír þristarnir verða á ferðinni, að sögn Stefáns Smára Kristinssonar hjá flugþjónustunni ACE FBO, sem sinnir þjónustu við vélarnar hérlendis. Hann telur líklegast að þristurinn Miss Montana komi næstur en áætlað er að hann verði í Reykjavík á sunnudag.

Fjöldi fólks nýtti sér tækifærið sem gafst á Reykjavíkurflugvelli i gærkvöldi til að skoða forngripina. Stöð 2/KMU.

Áhugamenn um þrista geta á meðan dáðst að Páli Sveinssyni sem, eftir vetrardvöl á Flugsafni Íslands á Akureyri, verður áfram í Reykjavík um sinn, að sögn Tómasar Dags Helgasonar, formanns Þristavinafélagsins.

Páll Sveinsson mun meðal annars taka þátt í flugdegi, sem áformaður er á Reykjavíkurflugvelli laugardaginn 1. júní. Það er einn af mörgum viðburðum sem búið er að skipuleggja í tilefni 100 ára afmælis flugs á Íslandi á þessu ári.


Tengdar fréttir

Páll komst loksins á stefnumót í kvöld

Íslenskir þristavinir glöddust innilega þegar Páll Sveinsson lenti á Reykjavíkurflugvelli laust upp úr klukkan sjö í kvöld. Fara þarf áratugi aftur í tímann til að finna dæmi um svo marga þrista samtímis á flugvellinum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.