Fótbolti

Nainggolan skaut Inter í Meistaradeildina en AC Milan situr eftir

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Radja skaut Inter í Meistaradeildina
Radja skaut Inter í Meistaradeildina vísir/getty

Það verða Atalanta og Inter sem verða fulltrúar Ítalíu í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð auk Juventus og Napoli sem höfðu fyrir löngu tryggt sér efstu tvö sætin en lokaumferð deildarinnar fór fram í dag og áttu fjögur lið möguleika á 3. og 4.sæti.

AC Milan situr eftir með sárt ennið þrátt fyrir að hafa unnið 2-3 sigur á SPAL þar sem Franck Kessie tryggði sigurinn skömmu fyrir leikslok. AC hafnar í 5.sætinu og fer því í Evrópudeildina líkt og AS Roma sem hafnar í 6.sæti en Rómverjar áttu mjög veika von á að ná fjórða sætinu fyrir lokaumferðina en 2-1 sigur þeirra á Parma dugði ekki til.

Atalanta og Inter unnu nefnilega sína leiki en Atalanta vann öruggan 3-1 sigur á Sassuolo á meðan Inter marði 2-1 sigur á Empoli en staðan var 1-1 fram á 81.mínútu þegar belgíski miðjumaðurinn Radja Nainggolan kom Inter í forystu.

Atalanta og Inter ljúka því keppni með 69 stig en AC Milan með 68 og Roma 66. Er þetta í fyrsta skipti í sögu Atalanta sem félagið öðlast keppnisrétt í Meistaradeild Evrópu.

Íslenski landsliðsmaðurinn Emil Hallfreðsson lék allan leikinn á miðju Udinese þegar liðið lagði Cagliari 1-2 en Emil skoraði fyrra mark Udinese í leiknum. Emil og félagar ljúka keppni í 12.sæti.

Úrslit kvöldsins þýða jafnframt að Empoli er fallið niður í B-deildina en Genoa lyfti sér úr fallsæti með því að gera jafntefli við Fiorentina.

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.