Erlent

Á sjötta tug fanga látinn í átökum gengja

Kjartan Kjartansson skrifar
Anisio Jobim-fangelsið í Manaus þar sem fangar voru drepnir.
Anisio Jobim-fangelsið í Manaus þar sem fangar voru drepnir. Vísir/EPA

Að minnsta kosti fjörutíu fangar voru kyrktir til bana í fjórum fangelsum í borginni Manaus í Brasilíu í gær. Daginn áður höfðu fimmtán fangar fallið í átökum gengja innan veggja fangelsanna. Fangelsisyfirvöld segjast hafa náð tökum á ástandinu.

Gengi fíkniefnasala eru sögð ráða lögum og lofum í nær öllum fangelsum Brasilíu. Fangelsin hafa lengi verið yfirfull og eru sögð hafa í reynd gert lítið annað en að hjálpa gengjunum að afla sér liðsauka.

Átök fangelsisgengja eru einnig tíð í landinu. Tæplega 150 fangar létust þegar gengi sem tengjast tveimur stærstu fíkniefnahringjum landsins slátruðu meðlimum hvers annars á þriggja vikna tímabili í janúar árið 2017.

Þeir sem voru drepnir á sunnudag voru ýmist kyrktir eða stungnir til bana, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

Jair Bolsonaro, forseti, hefur heitið því að ná aftur tökum á fangelsum landsins og að reisa fleiri. Flest fangelsi eru þó rekin af einstökum ríkjum Brasilíu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.