Fótbolti

Lifir ekki af klúðrið á móti Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ernesto Valverde og Lionel Messi.
Ernesto Valverde og Lionel Messi. Getty/Chris Brunskill
Ernesto Valverde verður ekki þjálfari Barcelona á næsta tímabili því samkvæmt fréttum frá Spáni þá þarf hann að taka pokann sinn.

Barcelona hefur unnið spænsku deildina tvö ár í röð undir stjórn Valverde og tekið gull og silfur í tveimur bikarúrslitaleikjum. Árangurinn í Meistaradeildinni hefur aftur á móti verið mikil vonbrigði.

Jordi Basté, fréttamaður á RAC1 útvarpsstöðinni, hefur heimildir um að forráðamenn Barcelona hafi tekið ákvörðun um að enda samstarfið við Ernesto Valverde.

„Mínar heimildir herma að Barcelona muni tilkynna það fljótlega að félagið hafi rekið Ernesto Valverde,“ sagði Jordi Basté en þetta sagði hann í beinni í útvarpinu og kemur fram á Twitter-síðu Gerard Romero.  Expressen segir frá.





Barcelona tapaði bikarúrslitaleiknum á móti Valencia um síðustu helgi og þau úrslit voru ekki að hjálpa Ernesto Valverde. Stuðningsmenn Valencia sungu um það í leikslok að Barcelona þjálfarinn yrði rekinn. Sú spá þeirra er að rætast.

Það er þó örugglega klúðrið í Meistaradeildinni sem átti mestan þátt í því að tími Valverde á Nývangi sé á enda.

Barcelona mætti á Anfield 3-0 yfir á móti Liverpool en komst samt ekki áfram. Liverpool vann seinni leikinn 4-0 og tryggði sér sæti í úrslitaleiknum.

Ernesto Valverde framlengdi samt samning sinn í febrúar síðastliðnum fam yfir 2019-20 tímabilið með möguleika um eitt ár í viðbót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×