Erlent

Endurkomu 737 Max gæti seinkað til sumarloka

Kjartan Kjartansson skrifar
Boeing hefur unnið að uppfærslu á hugbúnaði Max-vélanna eftir tvö mannskæð flugslys.
Boeing hefur unnið að uppfærslu á hugbúnaði Max-vélanna eftir tvö mannskæð flugslys. Vísir/EPA
Alþjóðasamband flugfélaga býst við því að Boeing 737 Max-farþegaþoturnar fái ekki að hefja sig til flugs aftur fyrr en í ágúst. Vélarnar voru kyrrsettar í mars eftir tvö banvæn slys en Boeing hefur sagst vonast til þess að koma þeim aftur í umferð í sumar.

Alexandre de Juniac, framkvæmdastjóri Alþjóðasambands flugfélaga (IATA), segir örlög 737 Max-vélanna í höndum eftirlitsstofnana. Hann á ekki von á að vélarnar fái leyfi til að fljúga aftur fyrr en eftir tíu til tólf vikur, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Bandarísk flugmálayfirvöld hafa sagt Alþjóðaflugmálastofnuninni að þau gætu samþykkt að vélarnar verði teknar aftur í notkun í júní. Evrópsk og kanadísk yfirvöld hafa aftur á móti sagt að þau ætli að taka sínar eigin ákvarðanir um vélarnar.

Talið er að galli í sjálfstýringu 737 Max-vélanna hafi valdið tveimur mannskæðum flugslysum með skömmu millibili. Fyrst fórust 189 manns með vél Lion Air í Indónesíu í október. Þoturnar voru svo kyrrsettar eftir að 157 manns fórust með vél Ethiopian Airlines í Eþíópíu í mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×