Erlent

Vígasveitir í Jemen hörfa

Hallgerður Kolbrún E Jónsdóttir skrifar
Lítill strákur gengur á milli matarpakka sem hjálparsveitir hafa flutt til Jemen.
Lítill strákur gengur á milli matarpakka sem hjálparsveitir hafa flutt til Jemen. Getty/Mohammed Hamoud
Uppreisnarherinn í Jemen hefur tilkynnt að byrjað sé að fjarlægja vígasveitir hans frá helstu hafnarstæðum landsins. Nýlega fóru fram friðarviðræður á milli uppreisnarmanna og stjórnar landsins til að enda fjögurra ára borgarastyrjöld. Greint er frá þessu á vef Reuters.

Vitni staðfesti við Reuters að vígasveitir væru á leið út úr Saleef höfn, sem er staðsett nálægt borginni Hodeidah sem talin er mjög landfræðilega og hernaðarlega mikilvæg.

Vígamenn segja einnig að þeir séu á faraldsfæti frá Ras Isa höfninni.

Vonast er eftir að það að vígasveitir dragi sig í hlé sé stórt skref í sáttatilleitunum til að ljúka stríðinu sem hefur meðal annars valdið hungursneyð í landinu.

Mohammed Ali al-Houthi, leiðtogi byltingarráðs uppreisnarmanna sagði að vígasveitir hafi byrjað að fara frá höfnunum kl. 10 á staðartíma í morgun.

Al-Masirah sjónvarpsstöðin sem rekin er af Houthi mönnum segir Sameinuðu þjóðirnar hafa eftirlit með brottför vígasveita en Sameinuðu þjóðirnar hafa ekki staðfest þetta.

Hafnirnar sem um ræðir eru helstu skipaflutningaleiðir Jemen, en um höfn Hodeidah, sem liggur að Rauðahafinu, er stór hluti varnings sem fluttur er inn í Jemen ferjaður, sem og aðstoð frá hjálparsamtökum. Um Saleef höfn er korn flutt og olía um Ras Isa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×