Enski boltinn

Hazard búinn að segja Chelsea hvað hann vill gera

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hazard eftir leikinn gegn Leicester í gær. Það var líklega síðasti deildarleikur hans fyrir Chelsea.
Hazard eftir leikinn gegn Leicester í gær. Það var líklega síðasti deildarleikur hans fyrir Chelsea.
Belginn Eden Hazard hefur fundað með forráðamönnum Chelsea og tjáð þeim hug sinn varðandi framtíðina. Hermt er að hann vilji komast til Real Madrid.

Hazard opinberaði í gær að hann hefði fundað með Chelsea fyrir tveimur vikum síðan og nú bíður hann eftir því að fá úrlausn sinna mála.

Það er ekkert leyndarmál að Real Madrid hefur mikinn áhuga á leikmanninum og sá áhugi er sagður vera gagnkvæmur.

Hazard á eitt ár eftir af samningi sínum við félagið og ef hann vill ekki framlengja þá verður Chelsea að selja núna ef það ætlar að fá alvöru pening fyrir hann. Belginn hefur verið í herbúðum Chelsea frá 2012 er hann kom þangað frá Lille.

Chelsea á eftir að spila úrslitaleik Evrópudeildarinnar og það gæti orðið síðasti leikur hans fyrir félagið. Hazard vill ekki að sín mál dragist á langinn og hefur óskað eftir því að hans mál verði kláruð fyrr frekar en síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×