Erlent

Rannsókn á nauðgunarmáli Assange opnuð aftur

Kjartan Kjartansson skrifar
Eva-Marie Persson, vararíkissaksóknari, tilkynnti um að mál Assange hefði verið opnað aftur í morgun.
Eva-Marie Persson, vararíkissaksóknari, tilkynnti um að mál Assange hefði verið opnað aftur í morgun. Vísir/EPA

Saksóknarar í Svíþjóð hafa opnað aftur rannsókn á ásökunum gegn Julian Assange, stofnanda Wikileaks, um nauðgun. Lögmaður konu sem sakar Assange um nauðgun fór fram á að málið yrði tekið upp aftur, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

„Það er enn rökstuddur grunur um að herra Assange hafi framið nauðgun,“ sagði Eva-Marie Persson, vararíkissaksóknari Svíþjóðar, þegar hún tilkynnti um ákvörðunina í morgun. 

Sænsk yfirvöld krefjast framsals Assange. Saksóknararnir segja að það þurfi að gerast hratt því meint brot hans fyrnist á næsta ári. Þörf sé á að yfirheyra hann.

Assange neitar sök. Saksóknarar létu málið falla niður eftir að hann neitaði að gefa skýrslu í Svíþjóð. Leitaði Assange meðal annars hælis í sendiráði Ekvadors í London og dvaldi þar í sjö ár til að komast hjá því að vera framseldur til Svíþjóðar. Ekvadorsk stjórnvöld sviptu hann hæli í apríl.

Breskur dómstóll dæmdi Assange í fimmtíu vikna fangelsi fyrir að brjóta gegn skilmálum lausnar gegn tryggingu sem hann fékk áður en hann leitaði hælis í sendiráðinu.

Bandaríkjastjórn vill einnig fá Assange framseldan en hann er ákærður þar fyrir að hafa átt þátt í tölvuinnbrotinu sem kom fjölda leynilegra skjala Bandaríkjahers og utanríkisþjónustunnar í hendur Wikileaks árið 2010.


Tengdar fréttir

Assange dæmdur í 50 vikna fangelsi

Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, var dæmdur í 50 vikna langt fangelsi í Bretlandi í dag fyrir að brjóta gegn skilyrðum þess er hann var látinn laus úr haldi lögreglu í Bretlandi árið 2012.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.