Villa í úrslitaleikinn eftir vítaspyrnukeppni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jed Steer markvörður fær faðmlag frá Jack Grealish í leikslok
Jed Steer markvörður fær faðmlag frá Jack Grealish í leikslok vísir/getty
Aston Villa spilar til úrslita í umspilinu um laust sæti í ensku úrvalsdeildinni að ári eftir sigur á West Bromwich Albion í vítaspyrnukeppni í kvöld.

Liðin áttust við í annað sinn í kvöld en Villa hafði betur 2-1 á heimavelli sínum í fyrri leiknum.

Craig Dawson kom heimamönnum í West Brom yfir á 29. mínútu leiksins með skalla upp úr hornspyrnu. Markið kom úr eina alvöru færi Albion í fyrri hálfleik.

Seint í seinni hálfleik fékk Chris Brunt dæmt á sig rautt spjald, sitt annað gula spjald, fyrir tæklingu á John McGinn en þeir höfðu átt í mikilli baráttu allan leikinn.

Gestirnir frá Birmingham náðu ekki að nýta sér liðsmuninn og endaði leikurinn 1-0, einvígið 2-2. Þar sem reglan um útivallarmörk var ekki í gildi var farið í framlengingu.

Ekkert mark kom þar og því þurfti vítaspyrnukeppni.

Jed Steer byrjaði vítaspyrnukeppnina á að verja fyrstu tvær spyrnur West Brom og kom gestunum í ansi þægilega stöðu, en þeir skoruðu úr sínum fyrstu tveimur. Albert Adomah skaut yfir úr sínu víti og gaf West Brom von en Tammy Abraham veitti náðarhöggið og tryggði Aston Villa sæti í úrslitaleiknum á Wembley.

Þetta verður annað árið í röð sem Villa fer í úrslitaleik umspilsins, en á síðasta ári töpuðu þeir fyrir Fulham. Í þetta skiptið verður andstæðingurinn annað hvort Leeds eða Derby.

Birkir Bjarnason var ekki í leikmannahóp Aston Villa í kvöld.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira