Fótbolti

Fær verðlaunapening þrátt fyrir að sitja í fangelsi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aleksandr Kokorin.
Aleksandr Kokorin. Getty/ Igor Russak
Rússneski landsliðsmaðurinn Aleksandr Kokorin tók þátt í að gera Zenit St Petersburg að rússneskum meisturum í ár en hann verður þó hvergi nálægt þegar titilinn fer á loft.

Ástæðan er að Aleksandr Kokorin situr nú á bak við luktar dyr. Kokorin fékk átján mánaða dóm fyrir að ráðast á embættismann en hann hefur verið í vörslu lögreglu síðan í október.

Áður en hann var handtekinn þá náði Aleksandr Kokorin að spila þrjá leiki með Zenit í rússnesku deildinni. Hann var samt sem áður á lista félagsins yfir nýkrýnda meistara og fær verðlaunapening.

„Ég held að við munum bíða þar til að við getum látið hann fá hann í eigin persónu,“ sagði Aleksandr Medvedev, forseti Zenit St Petersburg.





Zenit liðið hefur níu stiga forystu þegar aðeins tvær umferðir eru eftir. Liðið er með 61 stig en Lokomotiv Moskva er með 52 stig.

„Það er mín skoðun að leikmaðurinn eigi að fá þennan verðlaunapening þegar hann sleppur út,“ sagði Medvedev en formaðurinn tók illa í þá hugmynd að láta fjölskyldu leikmannsins fá gullverðlaunin.

Zenit St Petersburg varð rússneskur meistari í fyrsta sinn síðan 2015 en þetta er fimmti meistaratitill félagsins. Sá fyrsti kom í hús árið 2007.

Í kjölfarið á fréttum af verðlaunapeningi Aleksandr Kokorin hafa farið fram líflega umræður í Rússlandi hvort það sé rétt og í raun leyft samkvæmt reglum að verðlauna og heiðra mann sem situr í fangelsi.

Hinn 28 ára gamli Aleksandr Kokorin spilaði í 126 mínútur með Zenit St Petersburg á öllu tímabilinu.

Rússneska deildin leyfir hins vegar meisturunum að gefa 40 leikmönnum verðlaunapening og þar skiptir leiktíminn engu máli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×