Innlent

Kæra áform um gistiskýli

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Reykjavíkurborg hyggst opna gistiskýli úti á Granda.
Reykjavíkurborg hyggst opna gistiskýli úti á Granda. Fréttablaðið/Stefán

Nokkrir eigendur fasteigna á Grandanum freista þess nú að koma í veg fyrir starfrækslu gisti­skýlis fyrir heimilislausa á svæðinu með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Í nóvember samþykkti borgarráð kaup á húsnæði við Grandagarð undir gistiskýli fyrir unga heimilislausa karlmenn í verulegum vímuefnavanda. Gistiskýlið mun rúma 15 einstaklinga í einu og verða opið frá 17 síðdegis til tíu á morgnana.

Krafist er ógildingar á leyfisveitingu til innréttingar gistiskýlisins með vísan til þess að starfsemin samræmist hvorki skipulagsáætlunum né lóðarleigusamningi. Borgin telur hins vegar að um þjónustustarfsemi sé að ræða og því í fullu samræmi við skipulag svæðisins.

Kærendur telja starfrækslu gistiskýlis ekki samræmast þeirri starfsemi sem fyrir er á svæðinu en í kærunni er svæðinu lýst sem einu mest spennandi svæði borgarinnar undir veitinga- og verslunarstarfsemi og raunar undir allar tegundir atvinnustarfsemi, hönnunarvinnu og nýsköpunar. Fjöldi fyrirtækja á Grandanum aukist hratt, mikill áhugi sé á vannýttu húsnæði og lóðum og fjöldi gesta á svæðinu fari hratt vaxandi.

Verulegum áhyggjum er lýst af því að gistiskýli falli illa að starfseminni á svæðinu og muni verða til þess að hamla frekari þróun og uppbyggingu þar. Vísað er til þess að gistiskýlið verði sérstaklega ætlað sprautufíklum og um þá segir í kærunni: „Ljóst er að slíkum hópi manna munu fylgja ýmiss konar félagsleg vandamál sem munu koma harkalega niður á þeirri starfsemi sem nú blómstrar á svæðinu.“

Ekki er þó skýrt nánar í kærunni hvernig umrædd félagsleg vandamál muni bitna á hinni blómlegu starfsemi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.