Innlent

Þriggja milljarða króna hjúkrunarheimili byggt á Selfossi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Nýja hjúkrunarheimilið á Selfossi verður hringlaga á tveimur hæðum og staðsett á lóð Heilbrigðisstofnunar Suðurlands við Árveg á Selfossi.
Nýja hjúkrunarheimilið á Selfossi verður hringlaga á tveimur hæðum og staðsett á lóð Heilbrigðisstofnunar Suðurlands við Árveg á Selfossi. Magnús Hlynur Hreiðarsson.
Útboð á byggingu nýs hjúkrunarheimilis á Selfossi fer fram í næsta mánuði og fyrsta skóflustungan af heimilinu verður tekin í lok sumars. Sextíu hjúkrunarrými verða á heimilinu og mun byggingin kostar tæpa þrjá milljarða króna.

Íbúar í Árnessýslu hafa beðið nokkuð lengi eftir að framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili á Selfossi hefjist en hálfgert neyðarástand skapaðist eftir að dvalar og hjúkrunarheimilinu Kumbaravogi á Stokkseyri og Blesastöðum á Skeiðum var lokað fyrir nokkrum árum.  Biðlisti eru í dag eftir plássi á hjúkrunarheimili í sýslunni. Framkvæmdasýsla ríkisins er með málið í sínum höndum og er þessa dagana að útbúa útboðsgögn.

„Hönnun er á lokametrunum og verið að klára útboðsgögnin. Það er búið að vera að rýna ýmsar lausnir með tilliti til rekstrar og endingar, enda er þetta stór og kostnaðarsöm bygging, mikil fjárfesting, þannig að þetta er bara að smella hjá okkur“, segir Guðrún Ingvarsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslunnar.

Hvað gerist þá næst í málinu?

„Við erum að horfa á að útboðið fari fram núna í júní og tilboðin verði opnuð í ágúst og framkvæmdir fari þá í gang í byrjun september, þannig að skóflustunga verði í ágúst eða september“, bætir Guðrún við.

Guðrún Ingvarsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins sem segir að bygging nýja hjúkrunarheimilisins verði boðin út í júní 2019.fjármála- og efnahagsráðuneytið
Bygging hússins mun taka eitt og hálft ár sem þýðir að verklok verða í júní 2021. Í upphafi áttu hjúkrunarrýmin að vera fimmtíu en síðan var ákveðið að bæta tíu við. Nýja hjúkrunarheimilið verður staðsett á lóð sjúkrahússins á Selfossi. Húsið verður hringlaga.

Hvernig líst Guðrúnu á það?

„Okkur líst bara mjög vel á það, þarna myndast mjög skjólgóður og fínn garður í miðjunni og öll dagrými, setustofur og fleira tengjast inn í hringinn og á móti njóta öll hjúkrunarrými útsýnis út á hringinn. Við teljum að þetta verði mjög spennandi og flott viðbót í flóruna á hjúkrunarheimilum hér á landi“.

Kostnaður við nýja hjúkrunarheimilið verður 2,8 milljarðar króna en framkvæmdasýslan gefur ekki upp sundurliðun eftir verkþáttum á þessu stigi þar sem útboð hefur ekki farið fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×