Innlent

Gunnar neitaði sök í yfirheyrslu hjá lögreglu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi í Mehamn á laugardag.
Frá vettvangi í Mehamn á laugardag. TV2/Christoffer Robin Jensen
Gunnar Jóhann Gunnarsson, sem situr í gæsluvarðhaldi í Noregi grunaður um að hafa skotið bróður sinn til bana aðfaranótt laugardags, neitaði sök í yfirheyrslu hjá lögreglu í dag. Hann segir að um slys hafi verið að ræða og að hann hafi aldrei ætlað að meiða bróður sinn.

Frá þessu er greint á vef RÚV og vísað í samtal fréttastofu við verjanda Gunnars, Vidar Zahl Arntzen. Hann segir Gunnar hafa verið yfirheyrðan í fyrsta sinn í dag og stóð yfirheyrslan yfir frá klukkan 10 til klukkan 16:30.

Hefur RÚV eftir Arntzen að Gunnar sé niðurbrotinn vegna málsins og mjög leiður. Hann hafi þó getað varpað ljósi á það sem gerðist í yfirheyrslunni. Áður höfðu norskir fjölmiðlar greint frá því að Gunnar hefði játað morðið við handtökuna auk þess sem hann virtist játa verknaðinn í færslu sem hann setti á Facebook á laugardagsmorgun.

Gunnar var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald á mánudaginn. Annar Íslendingur, vinur bræðranna, sem grunaður er um aðild að málinu var úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald. Hann hefur neitað sök.

Fréttastofa hefur ekki náð tali af verjanda Gunnars í dag eða síðustu daga þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Í svari lögreglunnar í Finnmörk við fyrirspurn Vísis um yfirheyrslu lögreglu yfir Gunnari sagði að fjölmiðlar myndu ekki fá neinar upplýsingar um framvindu mála í dag þar sem það væri frídagur hjá upplýsingafulltrúum lögreglunnar.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Játaði morðið við handtökuna

Gunnar Jóhann Gunnarsson virðist hafa játað að hafa myrt Gísla Þór Þórarinsson er hann var handtekinn á sunnudag í Noregi. Lögregla hefur enn ekki yfirheyrt hann vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×