Innlent

Spara tíu milljónir

Sveinn Arnarsson skrifar
LSH auglýsir fyrir 400 þúsund á mánuði á samfélagsmiðlum.
LSH auglýsir fyrir 400 þúsund á mánuði á samfélagsmiðlum. vísir/vilhelm
Landspítali varði um 4,6 milljónum króna í auglýsingar á samfélagsmiðlum í fyrra. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Björns Levís Gunnarssonar á þingi.

Deildarstjóri samskiptadeildar spítalans segir að með því að færa auglýsingar á samfélagsmiðla sparist um tíu milljónir króna árlega.

Til samanburðar var samanlagður kostnaður Landlæknisembættis, Sjúkratrygginga Íslands, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Lyfjastofnunar og Heilbrigðisstofnunar Norðurlands einungis rúm ein milljón króna.

„Útgjöld Landspítala til auglýsinga í samfélagsmiðlum eru ekki nema um 20 prósent af því sem útgjöldin voru áður til prentmiðla. Auglýsingar í rafrænum miðlum eru árangursríkari og skilvirkari. Þessi þróun snýst alfarið um faglegri vinnubrögð og sparnað,“ segir Stefán Hrafn Hagalín, deildarstjóri samskiptadeildar Landspítala.

Björn Leví spurði ráðherra hvort kaup á auglýsingum á erlendum samfélagsmiðlum samræmdust stefnu stjórnvalda um að efla íslenska fjölmiðla. Heilbrigðisráðherra svaraði því til að kaup á auglýsingum væru ekki leið til að efla íslenska fjölmiðla. „Til þess þurfi að fara aðrar leiðir sem hafi það tiltekna markmið, byggist á skýrri stefnu og feli í sér sanngirni og jafnræði.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×