Innlent

Ráðist á starfsmann, sparkað í bíla og brotist inn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ráðist var á starfsmann verslunar í Breiðholti.
Ráðist var á starfsmann verslunar í Breiðholti. Vísir/vilhelm
Þrír voru handteknir á öðrum tímanum í nótt grunaðir um húsbrot í fyrirtæki í Laugardalnum. Þremenningarnir voru vistaðir í fangageymslu vegna rannsóknar málsins, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.

Á fimmta tímanum var óskað aðstoðar í verslun í Breiðholti en ráðist hafði verið á starfsmann verslunarinnar. Ekki fylgir sögunni hvort einhver hafi verið handtekinn í tengslum við málið.

Þá var einn handtekinn á tíunda tímanum í gærkvöldi grunaður um þjófnað úr verslun í Hlíðunum. Viðkomandi var vistaður í fangageymslu og er málið rannsakað. Rétt um miðnætti var svo tilkynnt um þjófnað í verslun í hverfi 108. Skýrsla var tekin af grunuðum á vettvangi og hélt hann sína leið í kjölfarið.

Á níunda tímanum var tilkynnt um slagsmál við veitingastað í hverfi 103. Slagsmálin voru yfirstaðin þegar lögregla kom á vettvang. Þá var tilkynnt um samkvæmishávaða úr íbúðum í nokkrum hverfum í gærkvöldi.

Skömmu fyrir klukkan eitt í nótt var tilkynnt um einstakling berjandi í hús með málmhlut í miðborginni. Viðkomandi fannst ekki. Á sjöunda tímanum í gærkvöldi var tilkynnt um einstakling að reyna að sparka í bifreiðar í Hafnarfirði. Við afskipti lögreglu kom í ljós að viðkomandi var mjög ölvaður og vistaður í fangageymslu sökum ástands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×