Fótbolti

Liðsrúta Barcelona skildi Messi eftir á Anfield í gærkvöldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi gengur af velli á Anfield í gær með fyrirliðabandið í hendi.
Lionel Messi gengur af velli á Anfield í gær með fyrirliðabandið í hendi. Getty/Chris Brunskill
Leikmönnum og starfsfólki Barcelona lá svo á að komast í burtu af Anfield eftir rassskellinn í gær að liðsrúta Barcelona fór af svæðinu án stærstu stjörnu liðsins.

Barceolona missti niður 3-0 forskot úr fyrri leiknum og steinlá 4-0 á móti Liverpool í seinni undanúrslitaleik liðanna í gærkvöldi. Lionel Messi skoraði tvö mörk í fyrri leiknum en mátti sín lítils á Anfield í gær á móti huguðu Liverpool liði.

Eftir leikinn vildu allir í Barcelona komast sem fyrst í burtu enda algjör martraðarkvöld að baki. Vandamálið var Lionel Messi.



Ekki voru það stælar í Argentínumanninum eða of mörg viðtöl. Messi hunsaði alla blaðamenn eftir leikinn og veitti engin viðtöl. Hann gekk bara niðurlútur í gegnum viðtalssvæðið.

Lionel Messi var hins vegar tekinn í lyfjapróf og það getur oft tekið sinn tíma að skila af sér í glasið eftir leik sem þennan. Messi sat á meðan fastur í lyfjaeftirlitsherberginu.

Spænska sjónvarpsstöðin El Chiringuito sagði síðan frá því að Messi hafi verið skilinn eftir á Anfield því liðsrútan beið ekki eftir því að hann kláraði lyfjaprófið.

Messi þurfti því að redda sér sjálfur út á flugvöll til að ná fluginu suður til Barcelona seinna um kvöldið.

Tapið í gær er mikið áfall fyrir Lionel Messi og félaga en Messi sjálfur lagði höfuðáherslu á að vinna Meistaradeildina á þessu tímabili.

Þetta var líka annað árið í röð þar sem Barcelona nær góðum úrslitum í fyrri leiknum en steinliggur svo á útivelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×