Innlent

Beittu hnífum við átök í miðbænum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögregla sinnti a.m.k. tveimur útköllum vegna slagsmála í miðbænum í nótt. Mynd tengist fréttinni ekki beint.
Lögregla sinnti a.m.k. tveimur útköllum vegna slagsmála í miðbænum í nótt. Mynd tengist fréttinni ekki beint. Vísir/KOlbeinn tumi
Lögregla handtók tvo menn í miðborginni laust eftir klukkan fjögur í nótt en þeir höfðu beitt hnífum í átökum, að því er fram kemur í dagbók lögreglu. Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins.

Um klukkan hálffimm barst lögreglu tilkynning um þrjá menn í tökum dyravarða í miðborginni en þeir höfðu tekið þátt í átökum. Lögregla fór að vettvangi og tók við úrlausn málsins.

Þá sinnti lögregla fleiri málum tengdum skemmtanalífinu en lögreglumenn fóru að heimili í austurborginni um klukkan fjögur í nótt. Þar hafði íbúi komið heim af galeiðunni og sofnað ölvunarsvefni með pizzu í ofninum.

Óskað var eftir aðstoð lögreglu að verslun í Kópavogi um klukka átta í gærkvöldi. Þar hafði maður reynt að hafa með sér kjötmeti án þess að greiða fyrir það.

Um eittleytið í nótt fann lögregla svo fíkniefni og piparúða við húsleit í Breiðholti. Þá var tilkynnt um innbrot í tvær bifreiðar í gærkvöldi, annað í vesturborginni en hitt í austurbænum.

Lögregla stöðvaði svo sex ökumenn í nótt vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×