Erlent

Talið að Danir hafi látist í árásunum á Sri Lanka

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Staðfest er að yfir 200 hafi látist í árásunum.
Staðfest er að yfir 200 hafi látist í árásunum. Vísir/getty

Talið er að danskir ríkisborgarar hafi látist í sprengjuárásunum á kirkjur og hótel á Sri Lanka í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá borgaraþjónustu danska utanríkisráðuneytisins. Engar tilkynningar hafa borist um Íslendinga á vettvangi árásanna, samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu. Samtals eru 207 nú staðfestir látnir í árásunum.

„Borist hafa fréttir af því að Danir séu á meðal hinna látnu og særðu. Borgaraþjónustan getur ekki staðfest það frekar á þessari stundu,“ segir í tilkynningunni, sem birt var á Twitter í dag.Norska ríkisútvarpið NRK hefur eftir Ib Petersen, yfirmanni hjá borgaraþjónustunni, að unnið sé að því að fá staðfestingu á dauðsföllum dönsku ríkisborgaranna í Sri Lanka. Þá veit hann ekki hversu margir Danir kunni að hafa fallið í árusunum en telur að um sé að ráða „mjög fáa“ einstaklinga, þó að margir danskir ferðamenn séu staddir í Sri Lanka.

Forsætisráðherra Danmerkur, Lars Løkke Rasmussen, lýsti yfir mikilli sorg vegna fréttanna en ítrekaði að ekki væri hægt að staðfesta þær á þessari stundu.Engir Íslendingar á vettvangi árásanna

Sveinn H. Guðmarsson upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins segir ráðuneytið ekki hafa fengið neinar upplýsingar um að Íslendingar séu staddir á vettvangi árásanna. Einhverjir Íslendingar séu þó staddir í Sri Lanka og nokkrir þeirra hafi látið vita af sér.

Sveinn bendir þó á að samfélagsmiðlar í Sri Lanka hafi legið niðri vegna árásanna og hvetur hann aðstandendur þeirra Íslendinga, sem taldir eru þurfa á aðstoð að halda úti, að hafa samband við borgaraþjónustuna.


Tala látinna í árásunum, sem samtals eru orðnar átta, er komin upp í 207. Fimm lögreglumenn létust í seinni árásunum tveimur, sem gerðar voru nokkru síðar í dag en hinar sex. Útgöngubanni hefur verið komið á frá klukkan sex síðdegis og til sex í fyrramálið að staðartíma.

Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásunum en ríkisstjórn Sri Lanka hefur gefið það út að sjö hafi verið handteknir vegna þeirra. Þá hafi fengist staðfest að sprengingarnar hafi verið sjálfsmorðsárásir og líklega standi einn tiltekinn hryðjuverkahópur á bak við þær.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.