Fótbolti

Þrjú íslensk mörk á sjö mínútum í Noregi

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hólmbert skorar á síðustu leiktíð.
Hólmbert skorar á síðustu leiktíð. vísir/getty
Þrjú íslensk mörk litu dagsins ljós í norsku B-deildinni er Álasund vann 4-2 sigur á Skeid í dag og Hjörtur Hermannsson var í sigurliði í Danmörku.

Aron Elís Þrándarson skoraði fyrsta markið á 17. mínútu og fjórum mínútum síðar tvöfaldaði Daníel Leó Grétarsson. Hólmbert Aron Friðjónsson var síðasti Íslendingurinn á blað á 24. mínútu.

Leiknum lauk að endingu með 4-2 sigri Álasund sem er með tíu stig eftir fyrstu fjóra leikina í deildinni. Daníel Leó og Aron Elís spiluðu allan leikinn en Hólmbert var tekinn af velli í hálfleik.

Aron Sigurðarson spilaði allan leikinn og Kristján Flóki Finnbogason síðustu tuttugu mínúturnar er Start tapaði 2-0 fyrir Sandes á útivelli.

Guðmundur Andri Tryggvason var ónotaður varamaður en Jóhannes Harðarson er stjóri Start sem er með sex stig eftir fjóra leiki.

Hjörtur Hermannsson stóð vaktina vel er Bröndby vann 2-1 útisigur á Midtjylland. Bröndby komst tvívegis yfir í leiknum og Bröndby er í fimmta sætinu í meistaraspilinu.

Þeir eru þó einungis tveimur stigum frá þriðja sætinu en Midtjylland er í öðru sætinu.

Viðar Ari Jónsson spilaði síðustu þrjár mínúturnar er Sandefjord gerði 3-3 jafntefli við við Tromsdalen á útivelli en Emil Pálsson er enn á meiðslalistanum. Sandefjord er í öðru sætinu með átta stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×