Innlent

Fulltrúar Vegagerðarinnar halda til viðræðna í Póllandi

Andri Eysteinsson skrifar
Herjólfur í prufusiglingu í Póllandi.
Herjólfur í prufusiglingu í Póllandi. Vegagerðin
Fulltrúar Vegagerðarinnar eru á leið til viðræðna um lokauppgjör vegna smíði á nýjum Herjólfi. Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar greindi frá þessu á bæjarstjórnarfundi í kvöld.  

Pólska skipasmíðamiðstöðin Crist S.A. fór fram á aukagreiðslu upp á rúman milljarð króna vegna rangra teikninga. Samgönguráðherra hefur sagt reikninginn tilhæfulausan og að ekki standi til að greiða hann og því er óljóst með afhendingu á nýrri Vestmannaeyjaferju.

Á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar í kvöld hvatti bæjarstjórn Vegagerðina til þess að ljúka samningum við Crist S.A. sem fyrst og sigla glæsilegum Herjólfi til heimahafnar í Vestmannaeyjum.

Vandræði í kringum opnun Landeyjahafnar rædd

Þá mun bæjarstjórnin einnig fara fram á að Vegagerðin vinni minnisblað um Landeyjahöfn. Á minnisblaðinu verði því lýst, hvernig koma eigi í veg fyrir að höfnin verði lokuð í eins langan tíma og gerst hefur í vetur.

Opnun hafnarinnar er nú þegar orðin meira en mánuði seinni en í fyrra, segir í bókun bæjarstjórnar. „Fyrir löngu var ljóst að verktakinn sem sinnir verkinu hefur ekki yfir að ráða þeim tækjakost sem dugar til þess að opna höfnina innan viðunandi tímamarka þegar veður leyfir dýpkun,“ segir í bókuninni.

„Samgönguyfirvöld í landinu verða að gera sér grein fyrir því hversu grafalvarlegt ástandið er og leita þarf allra leiða til að ráða bót á þessu ófremdarástandi þegar í stað, segir enn fremur í bókun bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar.


Tengdar fréttir

Segir Herjólfssmíðina komna í algjört rugl

Vegagerðin og skipasmíðastöðin Crist S.A. í Póllandi eru enn að vinna í lokauppgjöri á nýjum Herjólfi. Óljóst með afhendingu. Umboðsmaður Crist segir málið með ólíkindum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×