Fótbolti

Juventus dugir jafntefli á morgun til að verða meistari áttunda árið í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Juventus hefur unnið 27 af 31 deildarleik sínum í vetur.
Juventus hefur unnið 27 af 31 deildarleik sínum í vetur. vísir/getty
Juventus dugir jafntefli gegn Spal á útivelli á morgun til að verða ítalskur meistari áttunda árið í röð. Juventus er með 20 stiga forskot á Napoli þegar sjö umferðir eru eftir af deildakeppninni.

Juventus hefur haft gríðarlega yfirburði í ítölsku úrvalsdeildinni á tímabilinu. Liðið hefur unnið 27 af 31 leik, gert þrjú jafntefli og aðeins tapað einum leik.

Spal er í 16. sæti deildarinnar með 32 stig, fjórum stigum frá fallsæti. Juventus vann fyrri leikinn gegn Spal, 2-0. Cristiano Ronaldo og Mario Mandzukic skoruðu mörkin.

Það er skammt stórra högga á milli hjá Juventus en liðið mætir Ajax í seinni leiknum í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á þriðjudaginn. Max Allegri, knattspyrnustjóri Juventus, gæti því brugðið á það ráð að hvíla lykilmenn í leiknum gegn Spal á morgun.

Juventus er langsigursælasta félag Ítalíu. Liðið hefur 34 sinnum orðið ítalskur meistari. Mílanó-félögin, AC Milan og Inter, koma næst þar á eftir með 18 titla hvort.

Leikur Spal og Juventus hefst klukkan 13:00 á morgun. Hann verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×