Innlent

Kynna til­lögu að frið­lýsingu Látra­bjargs

Atli Ísleifsson skrifar
Lundar eru tíðir gestir á Látrabjargi en markmið friðlýsingarinnar er sagt vera að vernda sérstætt og fjölbreytt lífríki svæðisins og búsvæði fugla.
Lundar eru tíðir gestir á Látrabjargi en markmið friðlýsingarinnar er sagt vera að vernda sérstætt og fjölbreytt lífríki svæðisins og búsvæði fugla. Fréttablaðið/Stefán

Umhverfisstofnun kynnti í dag tillögu sína að friðlýsingu Látrabjargs og hefur verið óskað eftir athugasemdum um hana. Unnið hefur verið að undirbúningi friðlýsingarinnar frá árinu 2011 með samtali við landeigendur, sveitarfélag og fleiri hagsmunaaðila, að því er fram kemur á vef stofnunarinnar.

Í tillögu að mörkum svæðisins má sjá að það er 2.340 hektarar að flatarmáli. „Mörk friðlandsins eru frá Þambaraflögum, eftir Brunnanúp, að Hálsvörðu gegnum Lambalá, þar sem vötum hallar fram á bjargbrún, í sjó fram og alla leið að landamerkjum við Eyjaskorarnúp frá Melalykkju yfir miðjan Þorsteinshvamm og fylgi línan landamerkjum inn til landsins. Friðlandið nær jafnframt til hafsbotns, lífríkis og vatnsbols 1 km frá landi,“ segir í tillögunni.

Mörk friðlandsins samkvæmt tillögu Umhverfisstofnunar. Umhverfisstofnun

Meginmarkmið friðlýsingarinnar er sagt vera að „vernda sérstætt og fjölbreytt lífríki svæðisins og búsvæði fugla, einkum varpsvæði sjófugla. Friðlýsingunni er jafnframt ætlað að vernda og viðhalda náttúrulegu ástandi ásamt mikilfenglegu landslagi frá sjávarmáli upp á hæstu brúnir og ein mestu fuglabjörg við Norður-Atlantshaf.“

Þá er friðlandið sagt hafa mikið vísinda- og fræðslugildi og sé vel þekkt á meðal vísindamanna og fuglaáhugafólks. „Markmið með friðlýsingunni er einnig að tryggja rannsóknir og vöktun á lífríki svæðisins, með áherslu á búsvæði og afkomu varpfugla sem og að stuðla að fræðslu um fuglalífið í Látrabjargi.

Jafnframt er það markmið friðlýsingarinnar að vernda menningarminjar svæðisins. Svæðið hefur mikið aðdráttarafl fyrir gesti sem heimsækja Vestfirði og mikilvægt er að stýra þeirri umferð með verndarráðstöfunum,“ segir í tillögunni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.