Innlent

Eftir­lits­nefnd vill svör frá Reykja­víkur­borg

Ari Brynjólfsson skrifar
Eyþór segir að Braggamálið hefði ekki komið upp ef ábendingum innri endurskoðunar hefði verið fylgt þremur árum áður.
Eyþór segir að Braggamálið hefði ekki komið upp ef ábendingum innri endurskoðunar hefði verið fylgt þremur árum áður. Vísir/vilhelm
Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur sent Reykjavíkurborg bréf þar sem óskað er eftir upplýsingum sem koma ekki fram í skýrslu innri endurskoðunar borgarinnar um Braggamálið svokallaða. Bréfið kom fram á fundi borgarráðs fyrir helgi og er nú á borði fjármálaskrifstofu borgarinnar sem hefur 30 daga til að bregðast við.

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir sjaldgæft að eftirlitsnefndin þurfi að óska eftir upplýsingum um einstök mál frá sveitarfélögum.

Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn.Fréttablaðið/Anton Brink
„Þarna er verið að kalla eftir ástæðum þess að ekki var brugðist við ábendingum innri endurskoðunar um útgjöld. Í Braggamálinu var farið langt fram úr heimildum og ef það hefði verið farið eftir þessum ábendingum þá hefði Braggamálið og önnur slík ekki getað komið fyrir,“ segir Eyþór. „Eftirlitsnefndin, ég og margir borgarbúar viljum vita hvernig þetta gat gerst þegar það var búið að benda á að málin voru í ólestri.“

Í úttekt innri endurskoðunar frá 2015 um Skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, sem hafði umsjón með framkvæmdunum á Nauthólsvegi 100, voru settar fram ábendingar um atriði sem mættu betur fara. Í Braggaskýrslunni svokölluðu, sem kom út rétt fyrir jól, kom fram að ekki hefðu verið gerðar fullnægjandi úrbætur vegna ábendinganna frá 2015.

Vill því nefndin fá að vita hver eftirfylgnin hafi verið af hálfu innri endurskoðunar, hvort ábendingarnar hafi borist endurskoðunarnefnd og ytri endurskoðendum borgarinnar. Í bréfi sem sent var til borgarinnar í síðustu viku er einnig óskað eftir upplýsingum um reglur sem heimila tilfærslu fjárheimilda milli verkefna og um gerð viðauka við fjárhagsáætlun.

Skrif­stofa eigna og atvinnu­þró­un­ar var með umsjón með Braggaverkefninu við Nauthólsveg 100 sem er búið að kosta meira en 400 milljónir. Ákveðið var í kjölfarið að leggja skrifstofuna niður þann 1. júní næstkomandi.

Enn er eftir að klára úrbætur varðandi langstærstan hluta ábendinganna. „Á þremur árum var bætt úr sex af þrjátíu,“ segir Eyþór. „Kerfið er orðið svo flókið að ekki er farið eftir ábendingum sem kerfið sjálft bendir á og boðleiðirnar eru orðnar svo langar að stór mál hreinlega gleymast.“


Tengdar fréttir

Setur spurningarmerki við tímasetninguna

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, setur spurningarmerki við tímasetningu Fésbókarfærslu Stefáns Eiríkssonar borgarritara.

Fjármálin í góðu horfi þrátt fyrir framúrkeyrslur

Borgarstjóri segir fjármál Reykjavíkurborgar í góðu horfi þrátt fyrir þær framúrkeyrslur sem minnihluti borgarinnar hafi bent á upp á síðkastið. Braggamálið sé innan við eitt prósent af því fé sem borgin ráðstafaði á síðasta ári og umræðan sé komin út fyrir öll mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×