Innlent

Nýr framkvæmdarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands ráðinn

Hallgerður Kolbrún E Jónsdóttir skrifar
Lára Sóley Jóhannsdóttir verður framkvæmdarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá og með 1. ágúst næstkomandi.
Lára Sóley Jóhannsdóttir verður framkvæmdarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá og með 1. ágúst næstkomandi.
Lára Sóley Jóhannsdóttir ráðin framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands hefur ákveðið að ráða Láru Sóleyju Jóhannsdóttur í stöðu framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá og með 1. ágúst næstkomandi.

Lára Sóley er fiðluleikari og hefur starfað sem tónlistarmaður og sjálfstætt starfandi verkefnastjóri undanfarin ár. Á árunum 2010-2014 var hún verkefnastjóri við Menningarhúsið Hof og gegndi starfi framkvæmdastjóra Hofs í afleysingum. Hún hefur verið konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og framkvæmdastjóri Sumartónleika í Akureyrarkirkju. Lára Sóley er með BMus próf frá Royal Welsh College of Music and Drama og er að ljúka meistaranámi í listastjórnun við sama háskóla.

Lára Sóley hefur setið í stjórn og verkefnavalsnefnd Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, stjórn KÍTÓN (Félagi kvenna í tónlist) og stjórn Tónlistarfélags Akureyrar.

Lára Sóley er 37 ára gömul, gift Hjalta Jónssyni, sálfræðingi og tónlistarmanni og eiga þau þrjú börn.

Lára Sóley tekur við af Örnu Kristínu Einarsdóttur sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra undanfarin sex ár en hún tekur við starfi framkvæmdastjóra kanadísku þjóðarhljómsveitarinnar í Ottawa - National Arts Centre Orchestra.

Ráðið er í stöðu framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands til fjögurra ára í senn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×