Erlent

Trudeau rekur uppljóstrara úr eigin flokki

Kjartan Kjartansson skrifar
Trudeau er í klandri á kosningaári.
Trudeau er í klandri á kosningaári. Vísir/EPA
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, hefur rekið tvær þingkonur sem hafa sakað hann um óeðlileg afskipti af sakamáli úr Frjálslynda flokki sínum. Önnur þeirra er dómsmálaráðherrann sem sagði af sér og fullyrti að Trudeau og ráðgjafar hans hefðu beitt sig þrýstingi vegna málsins.

Trudeau hefur verið sakaður um að hafa reynt að fá Jody Wilson-Raybould, þáverandi dómsmálaráðherra, til þess að sækja SNC-Lavalin, eitt stærsta byggingar- og verktakafyrirtæki í heimi, ekki til saka vegna ásakana um mútugreiðslur í Líbíu.

Wilson-Raybould sagði af sér vegna þrýstingsins sem hún taldi óeðlilegan. Í síðustu viku var upptaka sem hún gerði af símtali við einn nánasta ráðgjafa Trudeau gerð opinber. Í samtalinu heyrðist ráðgjafinn, sem hefur þegar sagt af sér, þrýsta á þáverandi ráðherrann að gera sátt við fyrirtækið.

Forsætisráðherrann hefur nú rekið bæði Wilson-Raybould og Jane Philpott, sem sagði af sér embætti í ríkisstjórn hans vegna málsins, úr Frjálslynda flokknum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Vísaði hann til trúnaðarbrests. Philpott hefur einnig gagnrýnt Trudeau harðlega og hefur gefið í skyn að margt eigi enn eftir að koma fram um málið.

„Traustið sem var áður til staðar á milli þessara tveggja einstaklinga og liðsins okkar hefur brostið. Ef þær geta ekki sagt að þær hafi trú á þessu liði í hreinskilni þá geta þær ekki verið hluti af þessu liði,“ sagði Trudeau og vísaði sérstaklega til hljóðupptökunnar sem Wilson-Raybould gerði af símtalinu.


Tengdar fréttir

Leynileg upptaka þrengir enn stöðu Trudeau

Á upptökunni heyrist einn nánasti ráðgjafi Trudeau forsætisráðherra beita þáverandi dómsmálaráðherrann þrýstingi að sækja ekki stórfyrirtæki til saka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×