Enski boltinn

„Aldrei verið eins viss um að Liverpool myndi vinna leik“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Lyftir fyrirliði Liverpool enska meistaratitlinum í vor?
Lyftir fyrirliði Liverpool enska meistaratitlinum í vor? vísir/getty
Gary Neville telur að bæði Liverpool og Manchester City eigi eftir að tapa stigum í toppbaráttunni í ensku úrvalsdeildinni en segir Liverpool standa vel að vígi.

„Ég hef aldrei verið eins viss um að Liverpool myndi vinna leik og ég var í kvöld,“ skrifaði Neville í pistli sínum á Sky Sports í gærkvöldi eftir 1-3 sigur Liverpool á Southampton.

Liverpool fór á topp ensku úrvalsdeildarinnar með sigri en Manchester City á leik til góða og City verður Englandsmeistari ef þeir bláu vinna alla leikina sem þeir eiga eftir.

„Bæði lið hafa verið frábær á þessu tímabili. Næsti sunnudagur er risastór.“

City sækir Crystal Palace heim á sunnudaginn og eftir þann leik spilar Liverpool stórleik við Chelsea á Anfield.

„Ef City vinnur og leikmenn Liverpool vita að þeir þurfa að vinna Chelsea þá verða fæturnir aðeins þyngri. Ef City tapar stigum þá mun Liverpool koma hoppandi inn á völlinn.“

„Liverpool er í miklu betri stöðu heldur en fyrir nokkrum árum þegar þeir kepptu um titilinn. Þá var meiri örvænting í kringum þá.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×