Erlent

Miklu magni af kókaíni hefur skolað á land

Andri Eysteinsson skrifar
Frá aðgerðum lögreglu fyrir tveimur vikum.
Frá aðgerðum lögreglu fyrir tveimur vikum. EPA/Robert Ghement
Undanfarna daga hefur mikill fjöldi pakka skolað á land við Svartahafsströnd Rúmeníu. Pakkarnir reyndust innihalda eiturlyfið kókaín. Rúmenska lögreglan telur að pakkarnir hafi losnað frá mannlausu skipi sem fannst á Svartahafi fyrir rúmum tveimur vikum. Mannlausa skipið reyndist innihalda rúmt tonn af 90% hreinu kókaíni. BBC greinir frá.

Um 130 kg af efninu hefur nú skolað upp á strendur. Almennir borgarar hafa fundið pakkana og tilkynnt til lögreglu. Eftir að pakkarnir fundust hefur verið ræst út mikið lið til að vakta strandlengju Rúmeníu. 300 lögreglumenn, kafarar, smábátar, tvær þyrlur og 14 skip landhelgisgæslunnar sjá um eftirlit og sinna leit.

Talsmaður rúmensku lögreglunnar, Georgian Dragan, hvatti almenning til þess að opna ekki pakka sem þeir myndu finna á ströndinni. Einnig greindi Dragan frá því að tveir serbneskir menn hefðu verið handteknir í tengslum við málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×