Innlent

Sækja raftæki og spilliefni í hverfi borgarinnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Spillivagninn fór fyrst á kreik í haust.
Spillivagninn fór fyrst á kreik í haust. Fréttablaðið/Stefán
Borgaryfirvöld ætla að senda svonefndan spillivagn um borgina í vor en honum er ætlað að safna raftækjum og spilliefnum til að auka magn úrgangs sem er meðhöndlaður með réttum hætti. Á annað tonn spilliefna safnaðist þegar vagninn var gerður út af örkinni í haust.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að borgarbúar muni geta komið smærri raftækjum og spilliefnum í vagninn á ákveðnum stöðum í borginni og á ákveðnum tímum. Þjónustan sé viðbót við útgangsflokkun á endurvinnslustöðvum Sorpu.

Tekið verður við rafhlöðum, rafgeymum, ljósaperum, hitamælum, málningu, grunnum, bóni, viðarvörn, lími, lakki, hreinsiefnum, lífreynum leysiefnum, stíflueyði, eitri, olíu, feiti og raftækjum innan við 15 kíló eða 20 lítra.

Alls söfnuðust 1.638 kíló af spilliefnum í 177 ferðum spillivagnsins í haust. Ólöglegt er að handa spilliefnum í gráar tunnur undir blandaðan úrgang. Engu að síður segja borgaryfirvöld að ætla megi að um 150 tonnum af raftækjum og spilliefnum hafi verið hent og þau urðuð í Álfsnesi í fyrra.

Raftæki innihaldi oft spilliefni en einnig verðmæti eins og sjaldgæf hráefni og nýtanlega hluti sem æskilegt sé að endurvinna og nýta í framleiðslu nýrra raftækja og annarra hluta.

Voráætlun Spillivagnsins

· Árbær – þriðjudaginn 7. maí kl. 15–20 við Árbæjarlaug.

· Breiðholt – þriðjudaginn 23. apríl kl. 15–20 við Breiðholtslaug. 

· Bústaðir/Háleiti – þriðjudaginn 16. apríl kl. 15–20 við Austurver. 

· Grafarholt/Úlfarsárdalur – þriðjudaginn 30. apríl. kl 15-20 við grenndarstöð við Þjóðhildarstíg. 

· Grafarvogur – fimmtudaginn 9. maí kl. 15–20 við Spöngina.

· Hlíðar– þriðjudaginn 11. apríl kl. 15–20 við Kjarvalsstaði. 

· Kjalarnes –fimmtudaginn 2. maí kl. 15–20 við grenndarstöð Vallargrund 

· Laugardalur – þriðjudaginn 9. apríl kl. 15–20 við Laugardalslaug 

· Miðborg – miðvikudaginn 17. apríl kl. 15–20 við Sundhöllina

· Vesturbær – mánudaginn 24. apríl kl. 15–20 við Vesturbæjarlaug 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×