Erlent

Trump-stjórnin setur íranska byltingarvörðinn á hryðjuverkalista

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump þegar hann rifti kjarnorkusamningnum við Íran með forsetatilskipun í maí í fyrra.
Trump þegar hann rifti kjarnorkusamningnum við Íran með forsetatilskipun í maí í fyrra. Vísir/EPA

Ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta lýsti því yfir í dag að hún hefði skilgreint íranska byltingarvörðinn, hluta af her Írans, sem hryðjuverkasamtök. Bandarískir fjölmiðlar segja ákvörðunina fordæmalausa og að hún sé liður í tilraunum Trump til að leggja enn frekari refsiaðgerðir á Íran.

Washington Post segir að þetta sé í fyrsta skipti sem Bandaríkjastjórn hefur skilgreint her annars ríkis sem hryðjuverkasamtök. Blaðið segir að bandarísk her- og leyniþjónustuyfirvöld hafi varað við því að ákvörðunin geti orðið fordæmi sem óvinveitt ríki geti beitt gegn Bandaríkjunum í framhaldinu.

„Íranski byltingarvörðurinn er aðalleið írönsku ríkisstjórnarinnar til þess að stýra og koma í framkvæmd alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi sinni,“ sagði Trump í yfirlýsingu.

Ríkisstjórn Trump hefur tekið harða afstöðu gegn stjórnvöldum í Teheran. Trump sagði Bandaríkin þannig frá tímamótasamkomulagi heimsveldanna við Íran sem átti að koma í veg fyrir að Íranar þróuðu kjarnorkuvopn í fyrra. Í kjölfarið lagði Bandaríkjastjórn aftur á refsiaðgerðir sem aflétt hafði verið í tengslum við samkomulagið.

Í yfirlýsingu frá þjóðaröryggisráði Írans vegna ákvörðunar Bandaríkjastjórnar kom fram að hún gæti ógnað friði og stöðugleika í Miðausturlöndum og á heimsvísu. Írönsk stjórnvöld teldu Bandaríkjastjórn á móti stuðningsmenn hryðjuverka.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.