Innlent

Hreindýr spókaði sig á íþróttavellinum á Höfn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Dýrið hljóp yfir völlinn og hvarf svo inn í hríðina.
Dýrið hljóp yfir völlinn og hvarf svo inn í hríðina. Skjáskot/Facebook
Hreindýr gerði sig heimakomið á íþróttavellinum á Höfn í Hornafirði um fimmleytið í dag. Eyjólfur Guðmundsson, skólameistari Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu, tók hreindýrið upp á myndband þar sem það rölti yfir völlinn og birti á Facebook-síðu sinni.

Eyjólfur segir í samtali við Vísi að hreindýrið hafi verið að sniglast í bænum í nokkra daga. Aðspurður segir hann að sér hafi því ekki brugðið þegar hann kom auga á dýrið.

„Ég vissi af því, og það hefur svo sem gerst áður að það hefur komið inn í bæ en ég hafði aldrei séð það þarna áður.“

Þá sé það ekki algengt að hreindýr hætti sér inn í bæinn en það hafi þó gerst áður. Dýrið hvarf svo inn í hríðina eftir snúning á vellinum en Eyjólfur segist ekki hafa séð það aftur í dag. Myndband Eyjólfs má sjá í spilaranum hér að neðan.

Kjörsvæði hreindýra á Íslandi er á hálendinu norðan og norðaustan við Vatnajökul og á Austfjörðum. Þá er þetta ekki í fyrsta skipti sem hreindýr lætur sjá sig á Höfn en árið 2015 rataði myndskeið af hreindýri á vappi í bænum í fjölmiðla. Skömmu áður höfðu hreindýr sést synda inn í höfnina og halda þar upp á land.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×