Fótbolti

Sjö ár liðin síðan að Messi varð markahæsti leikmaður Barcelona frá upphafi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi fagnar marki.
Lionel Messi fagnar marki. Vísir/Getty
Lionel Messi hefur ekki aðeins bætt markamet Barcelona því hann hefur miklu meira en tvöfaldað metið.

César skoraði 232 mörk fyrir Barcelona á árunum 1942 til 1955. Hann átti markamet félagsins í sextíu ár eða þar til 20. mars 2012.

Það var nefnilega á þessum degi fyrir nákvæmlega sjö árum síðan sem Lionel Messi bætti met César og skoraði sitt 233. mark fyrir Barcelona.





Sá sem hafði komist næst meti César var László Kubala sem náði að skora 194 mörk fyrir Barcelona á síonum ferli.

Á þessum sjö árum hefur Lionel Messi bætt félagsmetið með hverju marki og hann hefur fyrir löngu tvöfaldað markaskor César.

Messi er nú kominn með 591 mark og vantar aðeins níu mörk í að komast í sex hundruð mörk fyrir Barcelona.

Hann er þegar kominn með 359 fleiri mörk en César skoraði á sínum tíma og það er allt eins líklegt að hann endi með 500 fleiri mörk en hann. Hann gæti mögulega endað á því að þrefalda gamla markametið.

Lionel Messi skoraði magnaða þrennu í síðasta leik sínum í spænsku deildinni og deildarmörkin hans eru orðin 412. César skoraði 190 deildarmörk á sínum tíma og er enn í öðru sætinu þar.

Messi skoraði 45 mörk allt tímabilið í fyrra en er kominn með 39 mörk í 37 leikjum í öllum keppnum í ár. Hann er því ekkert að gefa eftir í markaskorun og er líklegur til að komast yfir 50 mörk á tímabili í sjötta sinn á ferlinum.

Þetta er fimmtánda tímabil Messi með aðalliði Börsunga en hann verður 32 ára gamall í sumar.

Það styttist líka óðum í það að Messi verði spænskur meistari í tíunda sinn með Barcelona því liðið er með tíu stiga forystu á toppnum eftir sigurinn á Real Betis um síðustu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×