Innlent

SGS segir miður að Framsýn beri sambandið þungum sökum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri SGS.
Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri SGS.
Starfsgreinasamband Íslands segir miður að Framsýn, stéttarfélag Þingeyinga, hafi borið sambandið þungum sökum sökum þegar samningsumboð sem Framsýn veitti SGS var afturkallað. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem SGS sendi frá sér í dag vegna málsins.

Greint var frá því í gærkvöldi að Framsýn hefði samþykkt á fundi sínum að afturkalla samningsumboðið. Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar sagði í samtali við Mbl í gær að það væri mikill áhugi meðal félagsmanna Framsýnar að efna til samstarfs með stéttarfélögum á borð við Eflingu, VR og Verkalýðsfélögin á Akranesi og í Grindavík.

Í yfirlýsingu SGS segir að ákvörðun Framsýnar sé í samræmi við forræði einstakra félaga á sínum málum. Þá er tekið sérstaklega fram að sambandið myndi aldrei semja um kjararýrnun félagsmanna sinna.

„Það er miður að í tengslum við þessa samþykkt þurfi að bera félaga sína þungum sökum. Samninganefnd Starfsgreinasambandsins mun aldrei taka þátt í því að semja um að rýra kjör okkar fólks, hvort sem það lýtur að vinnutíma, álagsgreiðslum eða öðrum þáttum. Í viðræðum við Samtök atvinnulífsins hefur þessi afstaða komið fram með mjög sterkum og afdráttarlausum hætti og samninganefndarmönnum á að vera það algerlega ljóst. Það má minna á að Starfsgreinasambandið sleit viðræðum við SA vegna þessara þátta,“ segir í yfirlýsingu SGS.

„Samninganefnd Starfsgreinasambandsins mun ekki standa í skeytasendingum við félaga sína í fjölmiðlum. Verkefni okkar er að ná samningum um bætt kjör okkar fólks, við einbeittum okkur að því í samhljómi við félaga okkar í Eflingu, Verkalýðsfélagi Akraness og  Grindavíkur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×