Fótbolti

Messi dregur sig út úr landsliðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Endurkoma Messi hafði ekki tilætluð áhrif í gær.
Endurkoma Messi hafði ekki tilætluð áhrif í gær. vísir/getty
Lionel Messi leikur ekki með argentínska landsliðinu þegar það mætir Marokkó í vináttulandsleik á þriðjudaginn.

Eftir nokkurra mánaða frí frá landsliðinu lék Messi allan leikinn þegar Argentína tapaði fyrir Venesúela, 1-3, í vináttulandsleik í Madríd í gær.

Messi kenndi sér meins í nára eftir leikinn og í kjölfarið var ákveðið að hann yrði ekki með gegn Marokkó.

Fyrir leikinn í gær hafði Argentína aðeins tapað einu sinni fyrir Venesúela í 23 leikjum. Salomón Rondón, Jeison Murillo og Josef Martínez skoruðu mörk Venesúela í leiknum í Madríd en Lautaro Martínez mark Argentínu.

Eftir heimsmeistaramótið í Rússlandi í fyrra tók Messi sér frí frá landsliðinu, líkt og hann gerði eftir Suður-Ameríkukeppnina 2016. Útlegðin varði þó aðeins í nokkra mánuði og hann ákvað að gefa aftur kost á sér í landsliðið.

Messi hefur leikið 129 leiki fyrir argentínska landsliðið og skorað 65 mörk.


Tengdar fréttir

Engin draumaendurkoma hjá Messi

Lionel Messi sneri aftur í argentínska landsliðið gegn Venesúela. Leikurinn fór ekki vel fyrir Börsunginn og liðsfélaga hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×