Enski boltinn

Loksins spilaður fótbolti á nýja velli Tottenham

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Nýi völlurinn
Nýi völlurinn vísir/getty
Stuðningsmenn Tottenham gátu loksins farið og horft á fótboltaleik á nýjum heimavelli félagsins í gær.

Undir 18 ára lið Tottenham mætti Southampton í fyrsta fótboltaleiknum sem fór fram á nýja vellinum. Tottenham vann leikinn 3-1.

Næsta laugardag verður góðgerðarleikur, goðsagnir Tottenham mæta goðsögnum Inter Milan, og þá loksins verður búið að halda nógu marga viðburði til prófanna og aðallið Tottenham getur mætt á völlinn.

Mauricio Pochettino var á vellinum í dag að horfa á unglingaliðið.

„Þetta er ótrúlegt. Mér líður eins og þegar við kvöddum White Hart Lane með tárin í augunum. Draumur okkar hefur ræst,“ sagði Pochettino.

„Þetta er einn besti völlur í heimi og ég vona, og óska, að framtíðin hjá þessu félagi verði frábær.“

Völlurinn tekur rúmlega 62 þúsund manns í sæti og er því stærsti völlur félagsliðs í Lundúnum. Eini völlurinn í úrvalsdeildinni sem er stærri er Old Trafford, en hann tekur um 75 þúsund áhorfendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×