Enski boltinn

Van Dijk hrifinn af ástríðu stjóra síns: Klopp segir okkur alltaf sannleikann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Virgil van Dijk og Jürgen Klopp.
Virgil van Dijk og Jürgen Klopp. Getty/Andrew Powell
Jürgen Klopp er ástríðufullur knattspyrnustjóri sem segir hlutina hreint út. Leikmenn hans hjá Liverpool eru mjög sáttir við þá eiginleika stjóra síns að mati miðvarðarins öfluga Virgil van Dijk.

Liverpool er með tveggja stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og að elta sinn fyrsta enska meistaratitil síðan 1990 eða í 29 ár.

Virgil van Dijk segir að Klopp mæti með hreinskilnina að vopni þegar hann fer yfir frammistöðu leikmanna Liverpool. Þar fá menn að heyra hlutina eins og þeir eru.

„Hann (Klopp) er mjög ástríðufullur og segir okkur alltaf sannleikann,“ sagði Virgil van Dijk í viðtali í þættinum The Premier League Show.





„Hann er ekkert að tipla í kringum það sem þarf að segja. Ég sjálfur er mjög hrifinn af því og flestir leikmanna okkar eru það líka,“ sagði Van Dijk.

„Við höfum fundað mörgum sinnum á þessu tímabili og þar er hann oft ekki ánægður með hluti. Það er gott má því þótt að við höfum bara tapað einum leik á tímabilinu þá hafa verið hlutir sem við höfum getað gert mun betur,“ sagði Van Dijk.

Liverpool er á toppnum en Manchester City á leik inni og getur með sigri í honum náð aftur í toppsætið.

„Það er óheppilegt fyrir okkur hvað Manchester City liðið hefur verið gott á tímabilinu. Við höfum aftur á móti líka staðið okkur mjög vel,“ sagði Van Dijk.





„Þetta hlýtur að vera gott mál fyrir fólk sem elskar fótbolta. Ég hef á tilfinningunni að þetta ráðist ekki fyrr en alveg í lokin. Við munum gefa allt okkar í þetta og þeir munu gera það líka,“ sagði Van Dijk.

Næsti deildarleikur Liverpool er heimaleikur á móti Tottenham Hotspur á næsta sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×