Erlent

Samþykkja umdeild höfundarréttarlög

Samúel Karl Ólason skrifar
Andstæðingar laganna segja það fela í sér mikil fjárútlát og þróun flókins hugbúnaðar við að greina og fjarlægja efni sem er höfundarréttarvarið. Það gæti leitt til aukinnar fákeppni á mörkuðum þar sem eingöngu stærstu fyrirtækin hafi burði til að fylgja lögunum.
Andstæðingar laganna segja það fela í sér mikil fjárútlát og þróun flókins hugbúnaðar við að greina og fjarlægja efni sem er höfundarréttarvarið. Það gæti leitt til aukinnar fákeppni á mörkuðum þar sem eingöngu stærstu fyrirtækin hafi burði til að fylgja lögunum. WPA/PATRICK SEEGER
Evrópuþingið hefur samþykkt umdeild höfundarréttarlög sem gagnrýnendur segja að muni gerbreyta eðli internetsins. Lögin fela í sér að tæknifyrirtæki séu ábyrg fyrir því að notendur þeirra hlaði höfundarréttarvörðu efni upp á vefinn. 348 þingmenn greiddu atkvæði með lögunum og 278 greiddu atkvæði gegn þeim.

Tónlistarfólk, fjölmiðlafyrirtæki og aðrir efnishöfundar segja lögin geta bætt stöðu þeirra á netinu en samkvæmt BBC segja aðrir að lögin muni ganga frá efni hefðbundinna notenda. Stærstu tæknifyrirtæki heims, eins og Google og Facebook eru andvíg lögunum.



Lögunum var síðast breytt árið 2001 og það hefur tekið þó nokkrar tilraunir og breytingar til að koma lögunum í gegnum Evrópuþingið. Nú þurfa stök aðildarríki Evrópusambandsins að samþykkja lögin. Geri þau það hafa þau tvö ár til að koma þeim í gildi.

Tvö ákvæði laganna eru hvað umdeildust. Annað felur í sér að fyrirtæki sem reka leitarvélar og fréttaveitur þurfa að greiða fjölmiðlum fyrir að nota fréttir og efni þeirra. Hitt ákvæðið segir að tæknifyrirtæki séu ábyrg deili notendur þeirra höfundarréttarvörðu efni.

Andstæðingar laganna segja það fela í sér mikil fjárútlát og þróun flókins hugbúnaðar við að greina og fjarlægja efni sem er höfundarréttarvarið. Það gæti leitt til aukinnar fákeppni á mörkuðum þar sem eingöngu stærstu fyrirtækin hafi burði til að fylgja lögunum.

Þá eru svokölluð „meme“ myndir og stutt myndbönd undanskilin lögunum en óljóst er hvernig hægt sé að útfæra þá undanþágu. Því hafa lögin verið kennd við að þau muni ganga frá meme-um dauðum, ef svo má að orði komast.

Forsvarsmenn Google sögðu í janúar að ef lögin yrðu samþykkt gæti fyrirtækið þurft að aftengja fréttahluta leitarvélar þeirra í Evrópu.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×