Erlent

Indland orðið að „geim-ofurveldi“

Samúel Karl Ólason skrifar
Indverjar fylgjast með ávarpi Modi.
Indverjar fylgjast með ávarpi Modi. EPA/SANJEEV GUPTA
Indverjar framkvæmdu í nótt vel heppnað tilraunaskot þar sem eldflaug var notuð til að granda gervihnetti. Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, segir afrekið gera Indland af „geim-ofurveldi“. Einungis þrjú önnur ríki hafa skotið niður gervihnetti. Eldflaug var skotið frá Orissa í austurhluta Indlands og grandaði hún gervihnetti sem var í um 300 kílómetra hæð.

Bandaríkin og Rússlands framkvæmdu sambærilegt eldflaugaskot árið 1985 og Kína gerði það árið 2007. Öll ríkin vinna nú að því að þróa lasergeisla til að granda gervihnöttum og jafnvel eldflaugum.

Í sjónvarpsávarpi sagði Modi að Indverjar, sem ganga til kosninga á næstu vikum, ættu að vera stoltir af þessu afreki. Hann sagði tilraunina hafa verið framkvæmda í friðsömum tilgangi, samkvæmt AFP fréttaveitunni.



Hann sagði að tilraunaskotið hefði ekki brotið gegn alþjóðlegum lögum eða sáttmálum og væri eingöngu ætla að auka öryggi Indverja. Modi sagði Indverja ekki vilja taka þátt í einhverskonar geim-vopnakapphlaupi.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×