Fótbolti

Frederik og félagar hafa ekki fengið greitt

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Frederik Schram í æfingarleik með Íslandi fyrir HM.
Frederik Schram í æfingarleik með Íslandi fyrir HM. vísir/getty
Íslenski landsliðsmarkvörðurinn Frederik Schram og liðsfélagar hans í danska B-deildarliðinu FC Roskilde eru ekki búnir að fá greitt í dag en útborgunardagur er í dag.

Þetta kemur kannski ekkert svo mikið á óvart þar sem að félagið er í stórkostlegum peningavandræðum og gæti endað með því að fara á hausinn en forsvarsmenn Roskilde þurfa að finna 3,5 milljónir danskra króna til að bjarga félaginu frá því að fara í greiðslustöðvun.

Bold.dk greinir frá en ef að félagið verður gjaldþrota gæti það verið dæmt niður í neðstu deild. Roskilde var með frest þar til í gær en það virðist hafa fengið aðeins lengri frest hjá yfirmönnum dönsku deildanna.

„Leikmennirnir eru ekki búnir að fá greitt en við erum að vinna í því. Vonandi fá þeir borgað seinna í dag. Við erum að reyna að bjarga framtíð félagsins,“ segir viðskiptamaðurinn Carsten Salomonsson sem er að reyna að kaupa félagið og bjarga því frá gjaldþroti.

Salomonsson hefur biðlað ásamt félaginu til stuðningsmanna Roskilde um að lána Salomonsson pening svo hann geti endanlega gengið frá kaupum á félaginu og bjargað því.

Þetta yrði ekki í fyrsta sinn sem Frederik Schram, sem var í HM-hópi Íslands í fyrra, upplifir það að fara með félagi sínu í gjaldþrot því það sama gerðist þegar að hann var leikmaður Vestsjælland árið 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×