Fótbolti

Van Gaal: Núna er ég bara eftirlaunamaður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Louis van Gaal vann enska bikarinn í síðasta leiknum sínum á ferlinum.
Louis van Gaal vann enska bikarinn í síðasta leiknum sínum á ferlinum. Getty/Matthew Ashton
Louis van Gaal, fyrrum knattspyrnustjóri Manchester United, er hættur í fótboltanum en þessi reynslumikli stjóri er 67 ára gamall.

Van Gaal hefur verið atvinnulaus síðan að hann var rekinn frá Manchester United í maí 2016. Hann hefur nú tilkynnt að hann sé hættur að vinna.





„Núna er ég bara eftirlaunamaður. Ég hef engan áhuga á því að vera yfirmaður knattspyrnumála eða knattspyrnusérfræðingur í sjónvarpi,“ sagði Louis van Gaal í viðtali í VTBL sjónvarpsþættinum.

Van Gaal tók við liði Manchester United af David Moyes eftir 2013/14 tímabilið og stýrði liðinu fram í maí 2016. Áður hafði hann stýrt liðum eins og Ajax, Barcelona, Bayern München og hollenska landsliðinu.

Manchester United vann enska bikarinn í síðasta leiknum undir stjórn Louis van Gaal eftir 2-1 sigur á Crystal Palace í úrslitaleiknum þar sem Jesse Lingard skoraði sigurmarkið. Tveimur dögum síðar var hann rekinn úr starfi.

„Eiginkonan mín Truus fórnaði vinnunni sinni fyrir mig fyrir 22 árum og fylgdi mér erlendis. Ég lofaði henni að hætta þjálfun þegar ég yrði orðinn 55 ára. Ég hélt aftur á móti áfram þar til að ég varð 65 ára,“ sagði Van Gaal.





„Hún á það skilið að eiga líf með mér utan fótboltans. Ég get sagt ykkur það að hún er mjög ánægð. Ég er samt viss um að ég hefði staðið mig vel sem yfirmaður knattspyrnumála,“ sagði Van Gaal.

Marcus Rashford er einn af þeim sem þakkaði Louis van Gaal fyrir á samfélagsmiðlum en Van Gaal gaf Rashford einmitt fyrsta tækifærið í aðalliði Manchester United á sínum tíma.

Louis van Gaal vann tuttugu titla á ferli sínum þar á meðal hollensku deildina með Ajax og AZ Alkmaar, spænsku deildina með Barcelona og þýsku deildina með Bayern München. Van Gaal gerði ennfremur lið að bikarmeisturum í Hollandi (Ajax 1993), á Spáni (Barcelona 1998), í Þýskalandi (Bayern München 2010) og í Englandi (Manchester United 2016).










Fleiri fréttir

Sjá meira


×