Erlent

Mafíuforingi skotinn til bana í New York

Kjartan Kjartansson skrifar
Vitni segja að ættingjar Cali hafi þust út á götu eftir að hann var skotinn og setið grátandi yfir honum þar.
Vitni segja að ættingjar Cali hafi þust út á götu eftir að hann var skotinn og setið grátandi yfir honum þar. Vísir/AP

Höfuðpaur Gambino-glæpafjölskyldunnar í New York var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í gærkvöldi. Morðingi hans flúði vettvang og gengur laus. Þetta er fyrsta morðið á mafíuforingja í borginni í áratugi.

Frank Cali var 53 ára gamall. Vitni segja að morðinginn hafi skotið hann sex skotum og svo keyrt á hann í Todt Hill-hverfinu á Staten-eyju. Cali lést af sárum sínum á sjúkrahúsi, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Cali gekk undir viðurnefninu Frankie Boy. Vísir/EPA

Fjölmiðlar í New York segja að þetta sé í fyrsta skipti sem mafíuforingi er drepinn í borginni frá árinu 1985. Gambino-fjölskyldan er ein af fimm stóru ítölsku mafíufjölskyldunum í New York og var eitt sinn talin ein stærstu skipulögðu glæpasamtök í Bandaríkjunum. Völd hennar eru talin hafa dvínað eftir að leiðtogar hennar voru handteknir á 10. áratugnum.

Cali er talinn hafa tekið við stjórn samtakanna árið 2015. Talið er að hann hafi aðeins hlotið einn dóm um ævina. Sat hann inni í sextán mánuði fyrir samsæri um fjárkúgun árið 2008.

Síðast var mafíuforingi myrtur í New York þegar Paul Castellano, þáverandi leiðtogi Gambino-fjölskyldunnar, var skotinn til bana fyrir utan veitingastað árið 1985 að skipan Johns Gotti. Gotti tók síðan við stjórn fjölskyldunnar þar til hann var sakfelldur fyrir fjárkúgun og morð árið 1992. Hann lést í fangelsi árið 2002.

Todt Hill-hverfið er sagt alræmt fyrir tengsl sín við skipulagða glæpastarfsemi. Hverfið var meðal annars notað sem baksvið kvikmyndarinnar Guðföðurins árið 1972.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.