Fótbolti

Unnu HM í fótbolta saman og ætla nú að gifta sig í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ali Krieger (til hægri) og Ashlyn Harris (til vinstri) með Allie Long (í miðjunni) sem er með þeim í bandaríska landsliðnu.
Ali Krieger (til hægri) og Ashlyn Harris (til vinstri) með Allie Long (í miðjunni) sem er með þeim í bandaríska landsliðnu. Getty/Frazer Harrison

Tveir leikmenn úr heimsmeistaraliði Bandaríkjanna frá HM 2015 hafa nú sagt opinberlega frá trúlofun sinni og væntanlegri giftingu í sumar.

Leikmennirnir spila saman hjá bæði félagsliði og landsliði. Þetta eru þær Ali Krieger og Ashlyn Harris sem spila með liði Orlando Pride auk þess að spila með bandaríska landsliðinu.

Ali Krieger er varnarmaður en Ashlyn Harris er markvörður. Þær byrjuðu saman fyrir að verða áratug síðan þegar þær hittust fyrst í landsliðinu.

„Við sátum alltaf við hliðina á hvorri annarri í öllum rútum og flugvélum og þannig þróaðist þetta,“ sagði Ashlyn Harris í viðtali við People þar sem hún opinberaði samband þeirra.Parið hefur hingað til haldið sambandi sínu leyndu svo að það myndi ekki trufla liðsfélaganna eða aðra hjá félaginu.

„Við vildum vera fagmannlegar og passa upp á það að fólki vissu að við mættum til að vinna vinnuna okkar á hverjum degi en ekki bara til að eyða tíma saman. Við elskum það sem við gerum og við erum líka góðar í því,“ sagði Ali Krieger.

„Núna erum við níu árum síðar og ætlum að gifta okkur seinna á þessu ári,“ bætti Krieger við.

Stuðningsmenn Orlando Pride hafa grunað lengi að þær væru í sambandi og þær ganga jafnan undir gælunafninu „Krashlyn“ sem er samsett úr nöfnum þeirra.Ali Krieger og Ashlyn Harris ætla sér þó að verða aftur heimsmeistarar áður en kemur að giftingunni í sumar því hún mun ekki fara fram fyrr en eftir HM í Frakklandi í sumar.

Ali Krieger er 34 ára gömul og hefur spilað 98 landsleiki. Hún var valin í Fifa Fifpro heimsliðið árið 2016.

Ashlyn Harris er 33 ára gömul og hefur lengstum verið varamarkvörður Hope Solo í landsliðinu. Hún hefur spilað 20 landsleiki en verið miklu oftar í hóp án þess að koma við sögu.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.