Erlent

Stjórnendur námufyrirtækis hrökklast frá vegna stíflunnar sem brast

Kjartan Kjartansson skrifar
Fabio Schvartsman, fráfarandi forstjóri Vale, hefur átt í vök að verjast undanfarnar vikur.
Fabio Schvartsman, fráfarandi forstjóri Vale, hefur átt í vök að verjast undanfarnar vikur. Vísir/EPA
Forstjóri brasilíska námuvinnslufyrirtækisins Vale og nokkrir aðrir háttsettir stjórnendur sögðu af sér í gær. Hundruð manna fórust þegar stífla við járngrýtisnámu fyrirtækisins brast í janúar. Saksóknarar höfðu mælt með því að stjórnendur námunnar væru reknir.Talið er að á fjórða hundruð manns hafi farist þegar stíflan brast í Minas Gerais-ríki í suðausturhluta Brasilíu. Gríðarlegt magn af eitruðum aur frá námunni flæddi yfir stórt svæði í flóðinu. Þetta var í annað skiptið sem mannskaði varð þegar stífla sem tengist námum Vale brast í ríkinu á fjórum árum.Reuters-fréttastofan segir að gögn hafi komið fram sem sýni að stjórnendur Vale hafi vitað af því að hætta væri á því að stífla brysti. Eftirlitsmenn fyrirtækisins hafi fundist þeir beittir þrýstingi til þess að votta að stíflan væri traust.Fabio Schvartsman, forstjóri Vale, segist hafa beðið um að stíga til hliðar „tímabundið“. Stjórn fyrirtækisins hafi samþykkt það.„Ég er algerlega sannfærður um að bæði ég persónulega, og aðrir í framkvæmdastjórninni, hafi komið fram algerlega á viðeigandi og réttan hátt og sérstaklega af tryggð við óumsemjanleg gildi okkar um að hafa í heiðri rekstrarlegt öryggi sem fyrirtæki,“ sagði Schvartsman í bréfi til stjórnar Vale.


Tengdar fréttir

Fjöldi látinna í Brasilíu nú kominn í 125

Talsmenn brasilískra yfirvalda hafa staðfest að 125 manns hafi farist og 182 sé enn saknað eftir að stífla brast í járngrýtisnámu í Minas Garais í suðausturhluta landsins 25. janúar síðastliðinn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.