Innlent

Verkfall Eflingar löglegt og hefst í fyrramálið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sólveig Anna segir að dómurinn verði að falla Eflingu í hag til þess að hægt sé að sýna að verkafólk sé meira en bara vinnutól.
Sólveig Anna segir að dómurinn verði að falla Eflingu í hag til þess að hægt sé að sýna að verkafólk sé meira en bara vinnutól. Vísir/vilhelm

Félagsdómur dæmdi í dag boðað verkfall Eflingar á morgun löglegt. Um 700 félagsmenn Eflingar sem starfa við ræstingar á hótelum og gistiheimilum munu því leggja niður störf klukkan 10 í fyrramálið.

Samtök atvinnulífsins (SA) höfðuðu mál fyrir Félagsdómi gegn Eflingu þar sem þess var krafist að boðað verkfall stéttarfélagsins yrði dæmt ólögmætt.

Þá var þess einnig krafist að Efling yrði dæmt til greiðslu sektar í ríkissjóð vegna brota á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.

SA töldu atkvæðagreiðslu Eflingar hafa verið andstæða lögum þar sem atkvæðagreiðsla um boðað verkfall hefði aðeins átt að fara fram á meðal þeirra félagsmanna sem boðað verkfall ætti að ná til, en alls voru tæplega 8000 manns á kjörskrá.

Þá var vísað til þess að atkvæðagreiðslan hefði ekki verið póstatkvæðagreiðsla þar sem atkvæðum hafði verið aflað með kjörfundum fyrir utan einstaka  vinnustaði.

Félagsdómur féllst ekki á málatilbúnað SA og dæmdi verkfallið löglegt. Það mun því hefjast á morgun klukkan 10 og ljúka 23:59. Það nær til þeirra félagsmanna Eflingar sem starfa við ræstingar á hótelum og gistiheimilum á höfuðborgarsvæðinu, í Kjósarsýslu að Botnsá, í Grímsnes- og Grafningshreppi, í Hveragerði og Ölfusi.

Vísir var með beina útsendingu og textalýsingu frá Félagsdómi þegar dómur var kveðinn upp. Sjá má útsendinguna og textalýsinguna hér fyrir neðan.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.