Innlent

Hvarf Jóns Þrastar undarlegt en ekki grunur um glæpsamlegt athæfi

Sylvía Hall skrifar
Leit að Jóni Þresti hefur engan árangur borið þrátt fyrir fjölmargar ábendingar.
Leit að Jóni Þresti hefur engan árangur borið þrátt fyrir fjölmargar ábendingar. Lögreglan á Írlandi
Michael Mulligan, yfirlögregluþjónn írsku lögreglunnar, segir írsku lögreglunni hafa borist margar ábendingar vegna hvarfs Jóns Þrastar Jónssonar sem sást síðast í Dublin þann 9. febrúar síðastliðinn en að sögn Mulligan fylgdust um 600 þúsund manns með umfjöllun um leitina. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Leit að Jóni Þresti hefur enn engan árangur borið þrátt fyrir ábendingarnar og segir Mulligan að ekkert bendi til þess að glæpsamlegt athæfi hafi átt sér stað þrátt fyrir að málið sé afar óvenjulegt. Ábendingarnar sem um ræðir hafa ekki einungis borist frá Dublin heldur einnig frá fleiri stöðum á Írlandi og segir hann að búið sé að fylgja þeim öllum eftir án árangurs.

Þá segir Mulligan að búið sé að kanna hreyfingar á bankareikningi hans nýlega og þar hafi ekkert verið snert. Hann hafi ekki haft samband við neina fjölskyldumeðlimi eftir hvarfið sem sé undarlegt.

Síðustu helgi leitaði írska björgunarsveitin, Dublin Civil Defence, á um kílómetra svæði í kringum hótelið sem hann bjó á í Dublin. Fjölskylda Jóns Þrastar sagði það vera að einhverju leyti jákvætt að ekkert hafi fundist á því svæði sem leitað var á því það haldi voninni lifandi.

Davíð Karl Wiium, bróðir Jóns Þrastar, sagði í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 á dögunum að allar líkur væru á því að Jón Þröstur hafi farið með leigubíl af því svæði sem hann sást síðast á. Fjölskyldan hefur ekki gefið upp vonina um að finna Jón Þröst og ætlar sé að vera áfram sýnileg, hengja upp plaköt og vinna að því að finna Jón Þröst.  


Tengdar fréttir

Írar biðja fyrir því að Jón Þröstur finnist

Sautján dagar eru síðan Jón Þröstur Jónsson hvarf á Írlandi. Utanríkisráðherrar Íslands og Írlands ræddu málið á fundi sínum í gær. Bróðir Jóns Þrastar gengur húsa á milli í leit að bróður sínum. Hann finnur fyrir stuðningi Íra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×