Erlent

Samþykktu bann við því að vanvirða stjórnvöld

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Vladímír Pútín, forseti Rússlands.
Vladímír Pútín, forseti Rússlands. vísir/Getty
Ólöglegt verður að „vanvirða“ rússnesk yfirvöld og deila fréttum sem ríkisstjórnin álítur falskar eftir að frumvörp þess efnis voru samþykkt á rússneska þinginu í gær. Búist er við því að Vladímír Pútín forseti undir­riti löggjöfina eftir að efri deild þingsins samþykkir. Þangað fara frumvörpin þann 13. mars.

Miðað við frumvarpið mega þeir sem vanvirða stjórnvöld eiga von á um 200 þúsund króna sekt fyrir fyrsta brot. Sektir hækka með hverju broti og mega síbrotamenn eiga von á allt að fimmtán daga fangelsisdómi. Þeir sem birta svokallaðar falsfréttir mega eiga von á hærri sektum, allt að tæpum tveimur milljónum króna.

Ekki eru allir sáttir við frumvörpin. BBC hafði eftir blaðamanninum Nikolai Svan­idze að löggjöfin muni leiða til þess að blaðamenn fari að hræðast að skrifa fréttir af ótta við viðbrögð yfirvalda. Þá gagnrýndi viðskiptablaðið Vedomosti frumvörpin og sagði þau ógn við vefmiðla.

Stjórnarþingmaðurinn Pavel Krasjenínníkov er ekki sammála. Sagði lögin til þess fallin að vernda Rússa fyrir „vefhryðjuverkamönnum“ á meðan samflokksmaður hans, Anatolíj Víjborníj sagðist hrifinn af því að verið væri að aga ríkisborgara.

Stjórnmálaskýrandi BBC í Rússlandi sagði í umfjöllun sinni að frumvörpin væru liður í hertum aðgerðum Rússa gegn netfrelsi. Vakti athygli á því að nýlega var lagt fram frumvarp um „rússneskan veraldarvef“ sem væri óháður hinum almenna veraldarvef. Eins konar rússnesk útgáfa af hinu ritskoðaða, kínverska alneti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×