Enski boltinn

Undirbjó olnbogaskotið í andlitið á Hemma Hreiðars gaumgæfilega á bekknum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hermann Hreiðarsson steinliggur eftir olnbogaskotið frá Duncan Ferguson (lengst til hægri).
Hermann Hreiðarsson steinliggur eftir olnbogaskotið frá Duncan Ferguson (lengst til hægri). vísir/getty
Skotinn Duncan Ferguson, fyrrverandi leikmaður Everton í ensku úrvalsdeildinni, var ekki alltaf sá eðlilegasti inn á vellinum en hann átti það til að brjóta illa á mönnum; gefa þeim olnbogaskot nú eða bara að kýla þá í magann. Mjög áhugavert í ljósi þess að hann var framherji.

Hermann Hreiðarsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliði Íslands, lenti einu sinni illa í Ferguson en það var í leik Charlton og Everton undir lok árs 2004. Ferguson fékk þá rautt spjald fyrir að gefa Hermanni glórulaust og stórhættulegt olnbogaskot í andlitið.

„Þetta var rautt spjald. Það þarf ekkert að ræða það frekar,“ sagði vel pirraður David Moyes, þáverandi knattspyrnustjóri Everton, eftir leik en Hermann hafði mikil áhrif á leikinn.

Hermann „fiskaði“ rauða spjaldið á Ferguson þrátt fyrir að hann gerði ekkert nema að fá olnbogann í andlitið en íslenski landsliðsmaðurinn lagði svo upp fyrra markið og skoraði það síðara í 2-0 sigri eftir að Skotinn var rekinn út af.

Hermann Hreiðarsson var ekki barnanna bestur en hann átti þetta ekki skilið.vísir/getty

Undirbúið

James McFadden, samlandi Fergusons og samherji á þessum tíma hjá Everton, segir söguna af þessu olnbogaskoti í nýjasta þætti Premier League World sem frumsýndur var á Stöð 2 Sport HD í gærkvöldi en þar kemur fram að þetta var vel undirbúið og eins viljandi og ofbeldisverkin verða.

McFadden og Ferguson sátu saman á varamannabekknum á meðan að leik stóð og fóru yfir málin en Ferguson var lítill aðdáandi Hermanns sem honum fannst alltaf vera í því að reyna að meiða aðra leikmenn. Nú, svona svipað og hann sjálfur.

„Við vorum að spila gegn Hermanni Hreiðarssyni hjá Carlton þegar að hann sagði við mig: „Sjáðu hann [Hermann]. Hann þykist vera svakalega harður og er alltaf að sparka í fólk,“,“ sagði Ferguson við McFadden á varamannabekknum.

„Hann talaði mikið um þetta á meðan að leik stóð en svo fór hann inn á og lét vaða og fékk rautt spjald. Það var einhver umræða um þetta eftir leik en svona var stóri Dunc bara. Hann var frábær samherji sem að passaði upp á samherja sína,“ segir James McFadden.

Klippa: Premier League World - James McFadden um Duncan Ferguson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×